Arfur

Mér þykir ömurlegt að þurfa að segja þér þetta, en því miður þér kemur það við, sagði Hulla.

Ég sendi henni tortryggnislegt augnaráð og rétti henni hvítvínsflöskuna.
Þú verður að reyna að opna hana, ég get það ekki, sagði ég. Djöfull sem ég er pirruð á því hvað ég er máttlaus í höndunum. Hef verið að væla um þetta frá 2007 og kvað svo hart að að frú Varríus heimsótti mig í búðina og færði mér að gjöf krukkuopnara sem ég hef notað mikið síðan.

Hulla opnaði flöskuna og horfði á mig ábúðarfull á meðan ég hellti í glösin. Ég var ekki spennt fyrir fréttunum. Vissi að hún hafði verið að tala við móður okkar og að fréttirnar tengdust því. Átti alveg eins von á einhverjum skít um sjálfa mig eða strákana, einhverri kjaftasögu eða að hún hefði séð nafnið mitt í Lögbirtingi og væri að smjatta á því úti um allar þorpagrundir að sé í bullandi vanskilum.

– Það er blóðfaðir þinn, sagði systir mín. Ég setti í brýn.
-Ég veit að þér finnst hann ekkert koma þér við en það er semsagt ekki þannig.
Ég horfði spyrjandi á hana. Beið þess að hún lyki erindinu svo við gætum farið að tala um eitthvað skemmtilegra.
-Hann var að deyja … sagði hún en ég tók af henni orðið:
-Já og ef ég ætti von á arfi þá kæmi mér það við, en ég á ekki erfðarétt eftir hann og auk þess á hann 7 börn sem erfa hann svo það væri þá ekki mikið til skiptanna hvort sem er. Ég saup á glasinu. Örugg. Svöl. Ég þekkti hann ekki. Mér var sama hvort hann var lifandi eða dauður.

Hulla horfði alvarleg á mig.
-Hann dó úr erfðasjúkdómi, sagði hún, þessum sama og Edda Heiðrún Backman er með.

Það þyrmdi yfir mig. Sunneva er náfrænka Eddu Heiðrúnar og ein þeirra sem skiptast á að gista hjá henni. Hún hefur lýst sjúkdómnum fyrir mér. Þetta er taugalömun sem byrjar í útlimum og étur sig inn að hjarta. Fólk deyr venjulega þegar lungun fara að lamast. Fyrstu einkenni koma fram um fertugt. Þá byrjar fólk að hnjóta og detta, missa hluti og hættir að geta opnað krukkur.

Og ég sem hnýt, jafnvel á sandölum. Ræð ekki við að opna krukkur og furða mig stöðugt á því … Nei það er ekki hægt að gera afkvæmi sitt arflaust. Ekki að öllu leyti. Og Haukur og Sunneva, hvað ef þau eiga hvort um sig 50% möguleika á að erfa þennan ófögnuð? Eins mikið og mig langar í barnabarn og eins og fósturlát hryggja mig mikið þá ætla ég rétt að vona að það sé ekki barn á leiðinni.

——

Uppfært

Myndbandið af Eddu Heiðrúnu finnst ekki lengur en hér er eitt sem sýnir hverskonar ógeð er um að ræða.

Hér er svo ný frétt þar sem Edda Heiðrún kemur fram

 

Best er að deila með því að afrita slóðina