Vönduð þýðing á vinsælli bók tilbúin

Síðasta vetur dundaði ég við það, sjálfri mér til yndisauka að þýða bandaríska skáldsögu. Þetta er saga tveggja kvenna sem eiga það sameiginlegt að vera ekki ástfangnar af mönnunum sínum. Þær leggja ástríðu sína í matargerð og öðlast með því dýpri skilning á eðli hjónabandsins.

Sagan er ósköp yndisleg fjögurra stjörnu bók (skv Amason) sem hefur selst vel í Bandaríkjunum, verið þýdd á 20 tungumál og fengið góða dóma. Vel skrifuð, hlýleg, algerlega laus við væmni, full af léttri kímni og kaldhæðni í bland og fljótlesin, en of djúp til að geta flokkast sem chick-lit.

Ég hef boðið íslenskum bókaforlögum þýðinguna, byrjaði á því strax í janúar en fékk fyrsta nei-ið ekki fyrr en í síðustu viku, þegar ég var búin að margítreka erindið og reyndar fá gult ljós á útgáfu. Fékk svo næsta nei í dag eftir að hafa sent fremur gremjulega ítrekun um að svars væri óskað. Þetta er ekkert í fyrsta eða annað sinn sem ég rek mig á það viðhorf íslenskra bókaútgefenda að það sé mikil tilætlunarsemi, gott ef ekki dónaskapur af einhverjum vesalingum úti í bæ að bjóða þeim handrit. Yfirleitt virðast þeir líta á það sem sérstaka greiðasemi af sinni hálfu að fletta í gegnum handrit og varla að þeir ómaki sig á því að svara nema þeir séu ákveðnir í að kaupa útgáfuréttinn. Þeir sem á annaðborð svara segja yfirleitt bara ‘við skoðum þetta’ sem er sama svar og fangaverðir á Litla-Hrauni nota til að halda föngunum meðvituðum um valdleysi sitt.

Ég er reyndar ekki búin að bjóða bókaútgáfu votta Jehóva þýðinguna en ég reikna svosem ekki með að þeir hafi áhuga. Mér finnst dálítil synd ef þessi bók kemur ekki út á íslensku. Það væri tilvalið að birta hana í rafútgáfu sem merkir að kosnaður fyrir utan útgáfuréttinn yrði nánast enginn. Ég er í sambandi við höfundinn og umboðsmann hennar úti, svo ef einhver sem les þetta hefur áhuga á að kaupa útgáfuréttinn, þá endilega hafið samband.

Best er að deila með því að afrita slóðina