Hvenær elskar maður mann?

Ég vaknaði í björtu. Hélt að væri komið langt fram á dag en klukkan var bara 7. Það birtir svona miklu fyrr í Aabenraa en i Ørsta.

Já, ég er semsagt komin heim. Allavega í bili. Festi ekki yndi í Noregi sem er þó vafalaust besta land í heimi ef maður á annaðborð flytur þangað af einberum áhuga.

Ég veit ekki hvað Bjartur gerir. Hann sagðist vera tilbúinn til að búa í strákofa í Afríku bara til að vera hjá mér en meinti víst að það væri þó háð því skilyrði að hann fengi fasta vinnu hjá öruggu fyrirtæki og launin færu ekki undir laun lærðra iðnaðarmanna í Noregi. Ég vil fá’ann svo ef þið vitið um svoleiðis díl í Danaveldi, með eða án strákofa, þá látið mig vita.

Jamm ég vil fá’ann en hvort ég þrái návist hans nógu heitt til að fórna heimilinu og flytja á stað sem býður ekki upp á neitt af því sem skiptir mig máli, það á nú bara eftir að koma í ljós.

Ást er það að kjósa návist einhvers, hvorki meira né minna. Það getur verið eigingjörn og óþroskuð ást og stundum er manni betur borgið með einhverjum sem getur alveg hugsað sér að lifa án manns en það er þetta eina atriði sem skert úr um það hvort fólki er alvara. Sá sem kýs ekki návist þína ofar öllu öðru elskar þig ekki, hversu góður og tillitssamur sem hann er að öðru leyti, svo einfalt er það.

Eða það hélt ég allavega.

Kýs ég návist hans? Fokk já! En ekki ofar öllu öðru. Ég gæti alveg hangið í Noregi fram í ágúst en ég sé bara ekkert sem bendir til þess að það verði eitthvað auðveldara fyrir smið að fá góða vinnu í Danmörku þá. Sem þýðir að til að vera með Bjarti þarf ég að sætta mig við langtíma búsetu í Noregi.

Mér datt í hug að kúga hann til að koma með mér heim. Ég hefði sennilega alveg getað það. Það er auðvelt að brjóta ástfangið fólk niður og hann hefði sennilega hlýtt ef ég hefði orðið brjáluð eða grenjað eða hótað að drepa mig. Ég bara vil ekki svoleiðis samband.

Það er alveg hugsanlegt að ég verði jákvæðari gagnvart Noregi þegar ég er búin að horfast almennilega í augu við það sem mig grunar, að eina leiðin til að vera með Bjarti sé sú að flytja þangað. Ég vona samt að aðskilnaðurinn verði til þess að hann skoði möguleikann á að koma til mín. Og hvað er þetta annað en lágkúruleg valdabarátta? Mig vantar almennilega þýðingu á orðinu manipulation. Stjórnsemi er afleit þýðing. Að ‘manipulera’ einhvern merkir að beita lúmskum, sálrænum aðferðum til að stjórna öðrum. Það ku vera árangursríkara en hreinskiptið ofbeldi en ég er ekki viss um að mér geðjist það neitt betur. Þar sem ég kann ekkert íslenskt orð sem lýsir þessu, finnst klúðurslegt að nota heila setningu og enska orðið fellur illa að íslenskunni, ætla ég að nota sögnina að plata þar til ég sé betri tillögu.

Ég býst við að allir plati einhvern einhverntíma en sennilega er það oftast ómeðvitað. Það var ekki úthugsað plott hjá Bjarti að flytja fyrst og spyrja svo. Hann er heldur ekki meðvitað að reyna að plata mig þegar hann segist vera tilbúinn til að fara til Danmerkur næsta haust. Hann veit samt að það eru meiri líkur á að ég skipti um skoðun en að atvinnuumhverfið í Danmörku gerbreytist á nokkrum mánuðum og vonar líklega í hjarta sér að ég sætti mig við skynsamlegri kost.

Það er hinsvegar úthugsað plott hjá mér að fara heim og vona að hann elti mig. Engin ómeðvituð ósk heldur er ég í rauninni að reyna að plata Bjart til að gera það sem ég vil. Og er nógu sýkt af tvískinnungi til að finnast ég ögn skárri manneskja en ef ég hefði sett honum afarkosti eða frekjast þar til hann léti undan.

Er ég sátt við sjálfa mig? Nei, eiginlega ekki. Þetta er ekki gróft ofbeldi en ofbeldi samt og það er ekkert ásættanlegt. En ég yrði heldur ekkert sátt við að láta plata mig til að flytja til Noregs. Þótt það hafi verið ómeðvitað plat hjá manni sem hefur það ekki í sér að kúga neinn. Mig er farið að gruna að ofbeldislaus ástarsambönd séu ekki til.

Hvenær elskar maður mann og hvenær elskar maður ekki mann? Þegar maður er tilbúinn til að láta hann plata sig eða þegar maður er tilbúinn til að plata hann? Þegar allt kemur til alls snýst það ekki bara um að kjósa návist einhvers heldur um það hverju maður vill fórna fyrir þá návist.

Best er að deila með því að afrita slóðina