Þetta er bara svona

Þegar maður flytur á milli landa verða ótrúlegustu smáatriði að vandamálum. Þetta er lítið mál þegar maður á fjölskyldu í nýja landinu sem er búin að komast að öllu sem skiptir máli en töluvert flóknara þegar maður stendur einn. Að sumu leyti er maður bara eins og krakki. Veit ekki hvert á að snúa sér til að leysa einhver smámál. Veit ekki hvað er eðlilegt og líður oftar en ekki frekar heimskulega.

Af hverju tekur mánuð að fá kenniltölu? Æ, er þetta ekki bara svona hérna? Er maður ekki bara að gera sig að fífli með því að kvarta yfir því?

Er 14,70 eðlilegt verð fyrir einn lítra af mjólk? Þar sem verðið stendur skýrum stöfum á kælinum hlýtur það að vera eðlilegt eða hvað? Spurningin virðist heimskuleg svo maður spyr ekki.

Er þetta háa raforkuverð virkilega eðlilegt hjá þjóð sem framleiðir rafmagn? Nú varla er stórfyrirtæki að senda út ranga reikninga og Norðmenn tuða líka yfir orkureikningnum, þetta er bara svona hérna, eða hvað?

Eru 16 gáður eðlilegur stofuhiti í Noregi? Hlýtur það ekki bara að vera? Það eru öll húsin hér eins, stórt rými kynt með einni kamínu og rafmagnsofnar í svefnherbergjum.

Ég hef setið hér skjálfandi í 5 vikur. Ef hitastigið utan dyra fer niður fyrir 4 gráður, fer hitinn inni ekki upp fyrir 18. Oftast er hitinn inni 12-13 gráður þegar við vöknum og ef ég byrja að kynda kl 6 á morgnana er hitinn kominn í 17-18 gráður um kl 6 á kvöldin. Ég hef reynt að tala sem minnst um þetta því það var svosem ekkert við þessu að gera. Eða svo hélt ég. Auk þess halda bæði Bjartur og Hoppinteglan að þau séu mörgæsir og finnst bara 16-17 gráður mjög hæfilegt og nöldrandi konur eru leiðinlegar.

Um helgina frysti svo. Ég hef kviðið því en sem betur fer var Bjartur heima, og jafnvel hann fann að það var óþægilega kalt. Hann uppgötvaði að í húsinu er kælikerfi sem hefur verið í gangi allan þennan tíma. Og þar er komin skýring á rafmagnsnotkuninni um jólin, þegar enginn var í húsinu. Það þurfti semsagt bara að slökkva á þessu kælikerfi til að ná upp stofuhita.

Kannski er svona kælikerfi í öllum húsum hér og leigusalanum hefur sennilega ekkert dottið í hug að nefna það. Ég spurði ekki. Reiknaði bara með því að Norðmenn væru ónæmari fyrir hitabreytingum en flestir Íslendingar og klæddi mig í tvenna lopasokka. ‘Hversvegna í fjandanum er svona kalt hérna?’ hljómaði ekki sérlega gáfulega. Svarið virtist liggja í augum uppi, þetta er bara svona. Í stað þess að koma upp um heimsku mína, sat ég hér í fimm vikur og eyddi rafmagni í að kæla húsið. Vá hvað mér líður eitthvað gáfulega.

Best er að deila með því að afrita slóðina