Fårikål

Fårikål (eða kind í kįli) er hefðbundinn norskur réttur og á haustin koma vinnufélagar og klúbbar saman og borða þennan rétt og skemmta sér, þetta er víst ekki ólíkt íslensku þorrablóti og meðalaldur gesta 78 ár alveg eins og á Íslandi. Við sóttum slíka samkomu í gær, á vegum þrælaleigunnar sem starfrækir tilvonandi manninn minn og tengdaföður.

Það samt ekki eins flókið að elda fårikål og þorramat.
Setjið súpukjöt í stóran pott ásamt vatni, salti og nokkrum svörtum piparkornum. Skerið hvítkálshaus í 6 bita og setjið einnig í pottinn. Sjóðið lengi dags.

Þegar kjötið er dottið af beinum, smakkið það þá og ef ennþá vottar fyrir bragði og ef ennþá er mögulegt að kyngja því án þess að hafa með því umtalsvert magn vökva eða feiti, sjóðið það þá í 2 klst til viðbótar. Athugið að kjötið á að vera alveg þurrt, helst þannig að það molni.

Teljið heimskum almúganum trú um að þetta sé fínn matur og seljið aðgang að herlegheitunum. Ef upp koma efasemdir um að múgurinn kaupi þetta bull, leitið þá ráða hjá Íslendingum. Þeim hefur nefnilega tekist að telja sínum plebbum trú um að skemmdur matur sé fínn og þar kostar aðgöngumiði að þorrablóti daglaun en ekki bara klukkutímalaun eins og hér.

Ég hafði ekkert hugsað mér að stoppa hér nema kannski svona 10 daga (en er nú búin að vera hér í 3 vikur) og reiknaði ekki með að fara neitt út svo ég tók ekki nein fínni föt með mér og bara allra nauðsynlegustu snyrtivörur. Bjartur gaf mér 2 kjóla um síðustu helgi svo það bjargaðist, en eins og ég lít út núna, þyrfti ég helst spartl og grænan farða til að verða samkvæmishæf.

Ég kíttaði í dýpstu hrukkurnar og virti sjálfa mér fyrir mig í spegli. Ég leit út fyrir að vera 43ja ára. Sem ég og er. En það er nú kannski óþarfi að láta það sjást, allavega þegar maður er með manni sem er 11 árum yngri.

-Blessuð vertu, sagði Birtan í mér. Eins og maðurinn fer með skrokkinn á sér verður hann hrumur fyrir aldur fram. Eftir 10 ár mun enginn sjá aldursmun á ykkur.
-Mig langar samt ekki að líta svona út, sagði ég, lagaði hárið á mér með krullujárni og klemmdi það fallega upp í hnakkanum.

Bjartur kom til mín. Flissaði vandræðalega og togaði í toppinn.
-Uppsett hár? sagði hann.
Ég vissi hvað hann átti við. Einu sinni sat ég við stofuborðið í Bovrup og lakkaði á mér neglurnar. Hann sat við hliðina á mér og sagði ‘já? bleikt?’ í nákvæmlega þessum sama vandræðatón.
-Finnst þér þetta ljótt? spurði ég hreint út og hann sagði að ég liti út fyrir að vera eldri með hárið uppsett.

Ég skolaði hárið á mér og fór á samkomuna með tjásurnar hangandi ofan í augu. Hundóánægð með sjálfa mig. Það var skítkalt og þar sem ég var hvort sem var illa til reika, fór ég ekki úr ljótu, gráu peysunni sem ég hafði ætlað að vera í á leiðinni.

Þegar við komum heim spurði Bjartur mig hvort hann hefði mógðað mig með því að vera ósáttur við hárgreiðsluna og svo kom þetta sem allir karlmenn segja; ‘ég elska þig hvernig sem þú lítur út’ og ‘auðvitað gerir þú bara það sem þú vilt’ og ‘það eina sem ég vil er að þú sért ánægð’. Var reyndar búinn að drekka nógu marga bjóra til að koma því að í leiðinni að honum þætti líka óþægilegt að sjá mig með andlitsfarða.
-Eins og þú sért úr plasti, sagði hann og virtist fullur efasemda þegar ég benti honum á að ástæðan fyrir því að konur mála sig og að allar stjörnur og fyrirsætur eru fótósjoppaðar til helvítis, er einmitt sú að konur ERU fallegri þegar þær líta út fyrir að vera úr plasti.

Ég er komin á fimmtugsaldur og er vitur eftir því. Ég þekki karlmenn. Þegar karlmenn segja ‘auðvitað gerir þú bara það sem þú vilt’ þá eiga þeir við ‘en þegar þú gerir það, þá fer ég frá þér, fyrst tilfinningalega og svo að fullu.’ Og já, ég efast reyndar ekki um að hann muni halda áfram að elska mig, jafnvel þótt ég noti meik og greiði mér. Ég myndi heldur ekkert hætta að elska hann þótt hann tæki upp á því að láta nefhárin vaxa út úr nösunum og binda í þau litlar slaufur en ég reikna samt með að hann myndi stilla sig um að fara með mér á mannamót þannig útgangs.

Svo nú er ég búin að finna enn eitt atriðið sem við eigum ekki sameiginlegt. Þ.e.a.s. hugmyndir okkar um það hvernig ég líti vel út. Frábært! Það er svosem engin frágangssök en setur vissulega strik í reikninginn, því þetta merkir einfaldlega að við getum ekki farið út saman. Allavega ekki nema mér líði illa, annaðhvort vegna þess hvernig ég líti út eða vegna þess hvað honum finnst um útlit mitt.

Við höfum verið að tala um að giftast næsta vor. Er ég semsagt að fafa að gifta mig ómáluð og með tætt hárið lafandi ofan í augu eins og á útigangstryppi? Ehhh -NEI! Og ekki ætla ég heldur að mæta geislandi fögur, vitandi það að maðurinn sem ég ætla að eyða ævinni með sé að hugsa jaaá? eins og plastdúkka?

Langar mig að giftast honum? Fokk já. En hjónaband er náttúrulega fangelsi. Maður getur ekki leyft sér að skrifa það sem einhleyp kona getur leyft sér að skrifa. Maður ræður því ekki hvað maður gerir eða hvernig maður lítur út. Ekki nema með því að valda hinum aðilanum vonbrigðum.

Og þannig er það nú bara. Rassgat. Eða öllu heldur fårikål. Ég hugsa að ég noti það sem blótsyrði héðan af. Norðmenn skilja ekki rassgat en þeir skilja örugglega fårikål.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina