Þetta verður allt í lagi

Eva: Mig langar ekkert að búa í þessu landi!
Birta: Það er ekkert að þessu landi.
Eva: Ekkert að því? Það er 20. október og allt á kafi í snjó.
Birta: Jamm, og það er náttúrulega enginn snjór í Danmörku? Ef ég man rétt þá var allt á kafi þar í 6 mánuði samfleytt, síðasta vetur.

Eva: Það er þó allavega hægt að lifa þar. Verðlagið hér er hroðalegt.
Birta: Launin eru líka hærri og Bjartur hefur þó allavega vinnu.
Eva: Bjartur er þræll. Allavega hikuðum við ekki við að tala um impregilo sem þrælahaldara þegar Íslendingar fengu kost á því að leigja sér réttlausa útlendinga sem fengu skít og kanel í laun og var hægt að fara með eins og skepnur þetta er bara það sama. Engin trygging fyrir fastráðningu, hægt að senda þá heim kauplausa ef lítið er að gera, þeir mega vinna eins og þeir vilja jú, en fá dagvinnutaxta (lágan) greiddan fyrir næturvinnu sem þeir vinna óbeðnir og hver biður fólk að vinna á næturvinnutaxta þegar það er hvort sem er til í að vinna á dagvinnutaxta?
Birta: Það lagast. Hann fær fast starf eftir áramót og þetta er þó allavega vinna. Ekkert að hafa í Aabenraa eða nágrenni svo ekki gengur það upp. Og svo er fallegt hér og ekki þessi endalausa svínaskítslykt yfir öllum sveitum.
Eva: Það er fallegt hér já, en það er líka það eina. Ég get þó allavega tjáð mig á dönsku. Og ég þekki engan í þessu fjallaflæmi. Kela jú en hann er í Drammen og það er átta tíma akstur þangað.
Birta: Þykist þú nú allt í einu vera orðin félagslynd. Fegin er ég að þurfa ekki að tala við eitthvert fólk.
Eva: Og svo er skítkalt hérna. Rafmagnskynding uppi undir lofti svo þótt mælirinn sýni 20 gráður er varla nema 17 stiga hiti niðri við gólf.

Birta: Láttu ekki svona. Allir firðir fullir af fiski og svo fáum við okkur hænur og matjurtagarð. Þetta verður allt í lagi.
Eva: Auðvitað verður þetta allt í lagi. Ég myndi þrífast hvar sem er. Það yrði líka allt í lagi að vera á Stokkseyri en mig langar bara ekkert til þess.
Birta: Þetta er engin Stokkseyri.
Eva: Mig langar samt ekkert að búa hérna.
Birta: Og hvar viltu þá búa?

Því gat ég ekki svarað og ég veit ekki hvort mér finnst kvíðvænlegri tilhugsun; að fá íbúð hérna, segja upp fallegu íbúðinni minni í Bovrup og flytja eina ferðina enn eða að fá ekki í búð hér og búa í tveimur löndum um ókomna tíð.

Best er að deila með því að afrita slóðina