Flyt hingað líklega bráðum

Það er gott að eiga handlaginn mann. Ég er að vísu ekki til í að láta Bjart gera við tennurnar í mér en um daginn smíðaði hann tvíbreitt rúm úr afgangstimbri sem hann fékk að hirða í vinnunni. Það ískrar ekki í því og það stenst öll álagspróf. Rúmið mitt í Bovrup er mjótt og botninn í því svignar við 100 kg álag svo að því leyti er þægilegra fyrir okkur að vera í Voldu en Bovrup en fyrir utan það og náttúruna hér í kring, myndi ég frekar kjósa að búa nálægt Farmville. Það er hinsvegar ekkert geðslegt atvinnuástand á Suður Jótlandi og algengt að smiðir og fleiri iðnaðarmenn séu atvinnulausir tvo mánuði á vetri. Hér er nóg að gera, Bjartur er ánægður með vinnuveitendur sína og hefur aldrei þurft að ganga á eftir launagreiðslum. Eiginlega ætti Hulla og hennar fólk bara að flytja hingað og það er ég líka búin að segja þeim en hún systir mín kann ágætlega við að geta keypt í matinn án þess að kúlulán og þótt ég fyllt frystikistuna hennar af smáufsa myndi hún ekki elda hann.

Það er ekki gott úrval af leiguhúsnæði hér og mér hefur liðið mjög vel í litla, krúttlega húsinu mínu í Bovrup svo ég er dálítið hrædd um að við þurfum að byrja sambúðina í íbúð sem ég kann ekki við. Það verður samt ekki svo lengi að það verði óbærilegt því Bjartur ætlar að smíða hús handa mér. Við vitum ekki hvar í veröldinni það á að rísa en við erum byrjuð að teikna það.

Annars kvíði ég flutningunum. Gámur undir búslóðina mína kostar 35000 danskar krónur. Og ég veit ekki einu sinni hvort ég vil vera hér.

Best er að deila með því að afrita slóðina