Bakþankar

Birta: Hahh! Ég vissi það. Þú ert með bakþanka.
Eva: Nei.
Birta: Víst! Þú ert með rómantíska óra og alveg líkleg til að klúðra þessu, bara af því að þú ert ekki með fiðrildi í maganum.
Eva: Við erum búnar að ræða þetta. Ég þarf ekki að hafa fiðrildi í maganum. Enda hef ég oft orðið ástfangin og aldrei haft neitt upp úr því nema sorg og sársauka. Þessi býður allavega ekki upp á neitt svoleiðis rugl.
Birta: Nei, hann er traustur. Og þar fyrir utan er hann góðmenni og líka klár, skemmtilegur, með sömu áhugasvið og við, skilningsríkur, fordómalaus, læs á skáldskap…
Eva: Það er satt. Hann hefur allt. Við tökum hann.
Birta: Og Bjartur?
Eva: Bjartur er bara einmana. Það hendir flesta. Hann hefði ekki farið til Noregs ef ég skipti hann einhverju máli. Ég hefði heldur aldrei samþykkt að sitja í festum á meðan hann hringsnýst í Noregi án þess að vita almennilega til hvers hann var eiginlega að flytja þangað. Auk þess sér hann engan sérstakan mun á því að bjóða konu út að borða og að kaupa bensínstöðvarhamborgara í álpappír á leiðinni heim.
Birta: Þú ert samt í vafa.

Ég skrúfa fyrir raddirnar, sekk mér niður í sudoku gátur og undrast enn einu sinni hvað ég er ævintýralega léleg í því að leysa þessar andlausu þrautir. Hlakka í og með til að sjá Bjart þótt ég vildi frekar losna við að þurfa að koma vitinu fyrir hann. Hann ætlar að aka í gegnum Kaupmannahöfn svo ég geti orðið honum samferða heim, sendi mér sms í gærkvöld og sagðist reikna með að vera í Osló kl 1 svo hann kemur væntanlega til Kaupmannahafnar á morgun.

Vélin lendir á hádegi. Ég ætla að taka sporvagninn til vinkonu minnar í Kaupmannahöfn, ég hef gert það áður svo það verður ekkert vesen. Ég geng í gegnum tollinn og ákveð að að koma við í bakaríi og taka með vínarbrauð eða eitthvað annað gotterí til gestgjafa míns. En bakaríið gleymist snögglega og mér bregður dálítið þegar ég hver bíður mín í móttökusalnum. Það er lítil, falleg lopapeysa, með mosamjúk augu. Að vísu ferðast hann ekki á rygðuðu reiðhjóli heldur á kolryðgaðri mösdu en hvað sem því líður tekur hjartað í mér aukaslag þegar ég sé hann.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina