Af strjálum manni og fjaðurmögnuðum

Ég hafði dregið það í tvo eða þrjá daga að opna skeytið. Ég kannaðist ekki við netfang þess sem sendi það og setti það því ekki í forgang en nú ætlaði ég að henda ruslpósti og ákvað að athuga hvort þetta væri alvöru erindi eða rusl. Þetta reyndist vera ástarbréf frá klikkuðum manni.

„ … finnst þú vera einhver reisnarlegasta manneskja sem ég hef rekist á.“
Satt að segja hreyfði hann við hégómanum í mér og ég las bréfið aftur.

Venjulega skanna ég erindi af þessum toga í fljótheitum, þakka svo velviljann með eins fáum orðum og formlegum og mögulegt er, 7-10 dögum síðar. En þetta bréf var öðruvísi. Kímnin í því var ekki tekin af pikkuplínusíðum á netinu og bréfritari var greinilega ekkert óvanur því að raða saman orðum. Reisnarleg, sagði hann en nefndi brjóstin á mér ekki einu orði og minntist hvorki á andlega hæfileika sína né tíðar ferðir með mótmælaspjald á Austurvöll. Reyndar sagði hann engin deili á sér en hann skrifaði undir nafni. Ég skrifaði honum ástarbréf á móti enda ekkert órökréttara að elska ókunnugan mann sem segir að ég sé reisnarleg en kunnugan mann sem þegir þunnu hljóði.

Nokkrum dögum síðar höfðu mörg þúsund orð farið á milli okkar. Þetta reyndist vera atvinnulaus vesalingur. Kann reyndar að reikna og hafði víst fengið að dunda við að segja doktorsnemum hjá Háskólanum í Reykjavík dálítið til og stjórna einhverju alþjóðlegu rannsóknarteymi en er nú brottrækur ger (vegna niðurskurðar) og vinsamlegast beðinn að láta ekki sjá sig í húsakynnum skólans. Sú skoðun hefur heyrst að vafasamt sé að niðurskurðurinn gangi svo langt að ástæða sé til að takmarka fjölda þeirra sem mega koma inn í byggingar stofnunarinnar og háskólakennarar víðsvegar um heim ganga með þá flugu í höfðinu að uppsögnin standi í einhverju sambandi við kjafthátt hans og aðra óþekkt gagnvart skólayfirvöldum. Tugir þeirra hafa lýst hneykslun sinni við menntamálayfirvöld og greinar um valdníðslu HR gagnvart málfrelsinu hafa verið birtar í fjölmiðlum bæði hérlendis og erlendis. Þykir það aukinheldur með ólíkindum að stærðfræðingur af þessum „strjálleika“ eins og einhver orðaði það, skuli vera efstur á lista yfir þá sem þurfi að víkja.

Áhyggjur alþjóðasamfélagsins af málfrelsi íslenskra háskólamanna eru þó (að sögn skólayfirvalda HR) óþarfar með öllu. Opinber gagnrýni prófessorsins á yfirstjórn skólans hafði engin áhrif á þá skyndiákvörðun að segja honum upp, daginn áður en hann var beðinn um að skila inn námsáætlun haustannar (þess heldur þrálátt tuð hans á einkafundum) heldur var það niðurskurðarhnífurinn sívinsæli sem réði þessari ákvörðun. Mun enda vera nóg af fólki á Íslandi sem getur kennt doktorsnemum að nota vasareikni, svona ef þeir ráða ekki við að læra margföldunartöfluna og því rökrétt að byrja á því að losa sig við þá sem mesta hafa menntunina og reynsluna og eiga greiðastan aðgang að rannsóknarstyrkjum sem nýtast skólanum.

Forvitni mín um þetta vegalausa strjálmenni var vakin enda hef ég alltaf verið dálítið aumingjagóð og þegar hann upplýsti að hann kynni að prjóna lopapeysur og spila scrabble og væri auk þess umhverfisvænn, tók hjartað í mér nokkra aukakippi. Ég sá fyrir mér litla, úfna lopapeysu á ryðguðu reiðhjóli og auk þess gæti ég látið hann um að leggja saman stigin þegar við spiluðum scrabble. Ég vissi ekki til að við ættum neina sameiginlega kunningja og ekki lá mikið af upplýsingum um hann á internetinu, svo ég sá fram á að þurfa bara að hitta hann til að leggja mat á hann. Það varð úr að hann ákvað að heimsækja mig, enda hafði hann svosem ekkert þarfara að gera, atvinnulaus maðurinn.

Daginn sem hann kom, áttaði ég mig á því að hann hafði ráðið sér ímyndarfulltrúa, mann að nafni Baldur Hermannsson, sem lýsir honum sem „eldklárum andskota“ og „fjaðurmögnuðum“ manni sem býr yfir „sprengikrafti“ og „heillar dömurnar upp úr skónum þótt hann sé ljótur“. Það var fyrst þarna sem ég rann fram af leðurstólnum enda eru þær silkihúfur sem hingað til hafa heillað mig nærtæk sönnun þess að ekkert virkar jafn vel á mig og ljótur maður, nema ef vera skyldi maður sem er bæði ljótur og atvinnulaus. Ég velti því fyrir mér hvernig fjaðurmagnaður maður kemur fyrir sjónir og ég, sem annars á dálítið erfitt með myndræna hugsun, sá fyrir mér fyrirlestrarsal og háskólaprófessor með myndvarpa og bendiprik, fjaðrandi á táberginu. Nokkrum klukkutímum síðar sótti ég hann út á flugvöll. Hann stóð að vísu ekki fjaðrandi á tánum fyrir utan flugstöðina en strjáll var hann sannarlega og sprengikraftur hans þvílíkur að mildi mátti teljast að hann hafði ekki verið handtekinn vegna gruns um tengsl við hryðuverkasamtök.

Um leið og ég stóð augliti til auglitis við vonbiðil minn, rann upp fyrir mér hversvegna hann hafði verið beðinn að halda sig fjarri húsakynnum HR. Maðurinn er hátt í 170 cm á hæð og þrekinn eftir því. Það er auðvitað rökrétt að fjársveltur skóli reyni að forðast að maður svo mikill á velli, fylli hið takmarkaða rými á göngum skólans, á þessum tímum kreppu og niðurskurðar.

Best er að deila með því að afrita slóðina