Engir garðar á Íslandi?

Ég bý í parhúsi við einkar snyrtilega götu. Íbúðirnar voru upphaflega ætlaðar öldruðum og ég er eini íbúi götunnar sem ekki er ellilífeyrisþegi. Einstök heppni að hafa fengið þessa íbúð sem er bæði fallegri og betur einangruð en gengur og gerist. Nágrannar mínir eru indælt fólk og alveg rosalega duglegir að taka til í görðunum hjá sér.

Conný sem býr við hliðina á mér er algjör skrautfjöður. Garðurinn allur skreyttur með styttum, blómakerjum, lugtum og allrahanda dóti sem er skipt út á 6-7 vikna fresti. Í hvert sinn sem við hittumst úti sýnir hún mér einhvern hlut sem hún hefur fengið fyrir lítið og talar um að það þurfi nú alls ekki að vera dýrt að hafa fallegt í kringum sig.

Ég hef aldrei velt því mikið fyrir mér hvernig annað fólk málar húsin sín, hvernig gluggatjöld það velur eða hvernig það hefur lóðina sína. Ég dáist að því sem mér finnst sérlega fallegt, sértæk jólaskrautsröskun með blikkljósum sem lýsa upp stofuna hjá mér á 15 sekúndna fresti fer í taugarnar á mér og ég myndi ekki vilja hafa bílakirkjugarð eða sorphaug nálægt húsinu mínu en yfirleitt koma mér heimili og garðar annarra lítið við. Mér finnst limgerði almennt frekar misheppnað fyrirbæri og fátt ljótara en hekk sem lítur út fyrir að hafa verið steypt í kassalaga mótum en ef fólk vill hafa það þannig nú þá nenni ég ekki að láta það eyðileggja fyrir mér daginn.

Ekki hvarflar þó að mér að renna yfir limgerðið vikulega eins og mér sýnist algengt hér um slóðir. Mitt limgerði var klippt í vor, einu sinni, og Eiki klippti hluta af því fyrir mig aftur í byrjun júlí, ekki af því að það færi í taugarnar á mér að hafa það ósnyrt, heldur af því að það var orðið svo umfangsmikið að ég komst ekki að rósunum og auk þess var það vaxið inn á miðja stétt. Restin má vaxa eins og henni þóknast, Mér finnst úfið limgerði fallegra en ferkantað og mér finnt mosi líka fallegur og hafði alls ekki hugsað mér að fjarlægja mosann úr lóðinni hjá mér fyrr en mér varð ljóst að það var vegna hans sem jarðarberjaplöturnar þroskuðust ekki vel. Ég skóf mosann frá jarðarberjunum, klippti rósirnar, hreinsaði burt netlur sem eru reyndar fallegar en ekki þægilegt að ganga á þeim og kanínurnar sáu um að slá grasið. Ég fjarlægði líka helling af fíflum, enda þótt mér þyki þeir sérdeilis fallegir, því þeir dreifa sér svo agalega mikið að maður neyðist eiginlega til að halda þeim í skefjum ef eitthvað annað á að geta vaxið.

Lóðin var mjúk af mosa og hlýleg og þegar Bjartur var búinn að aka burt vagnhlassi af garðúrgangi fannst mér þetta alveg hæfileg umhirða um garðinn, hann var notalegur en ekki svona dauðhreinsaður eins og hjá nágrönnum mínum sem virðast allir vera að keppa til verðlauna um snyrtilegasta garðinn.

Í allt sumar hafa nágrannarnir elskulegu, heilsað mér glaðlega með hófsamlega orðuðum athugasemdum um að þetta sé góður dagur fyrir garðvinnu. Lengi hélt ég að þau væru bara að finna sér eitthvað til að spjalla um og þar sem þau eru alltaf á kafi í garðvinnu, öll, taldi ég að þau væru að tala um sjálf sig, þ.e. að þetta væru góðir dagar fyrir þau sjálf til að vinna í garðinum. Það var fyrst þegar Carla, konan hinum megin, bauðst til að lána mér garðverkfæri og gefa mér lauka, sem mér varð ljóst að þau áttu við að ÉG ætti að sinna garðinum betur. Ég var dálítið hissa á því, þar sem garðurinn var í fyrsta langi langt frá því að vera í neinni órækt en auk þess sést ekki einu sinni inn í hann, nema frá Conný og því að eins að hún beinlínis troðist á milli runna. Ég afþakkaði því bara verkfæri og lauka með bjánalegu brosi, dálítið hissa á þessum áhyggjum nágrannakonu minnar af garði sem hún sér ekki. Nokkrum dögum síðar var það svo Conný sem kveikti á perunni hjá mér.

Þannig er að fyrir framan húsið eru malarbeð með nokkurm smárósarunnum. Ég var á leið út þegar Conný nefndi, afskaplega kurteislega að ‘við’ (les ég) þyrftum að uppræta nokkrar netlur sem voru farnar að stinga sér upp milli steina. Þær höfðu ekkert plagað mig, þar sem ég geng hvort sem er ekki í malarbeðunum og þessi tegund ber falleg, fjólublá blóm sem fara bara vel við bleiku smárósirnar. Það var samt greinilegt að netlurnar fóru í taugarnar á Conný og þar sem ég get allt eins haft netlur í bakgarðinum ef mig langar til þess, kippti ég þeim upp þegar ég kom heim. Conný varð ekkert lítið hamingjusöm og benti mér vingjarnlega á að sumsstaðar væri kominn mosi milli hellna.

Ég hafði einmitt undrað mig á því að hjá hinu fólkinu í götunni er enginn mosi milli hellna en ég hef samt aldrei séð neinn skafa hann upp. Á stöku stað sér maður hinsvegar gulan, visinn mosa og ég reiknaði með að þau hefðu eitrað. Mér finnst bara mjög fallegt að sjá mosa á milli hellna en af tillitssemi við Conný, sem finnst það greinilega ekki, fór ég samt út með hníf sem var hvort sem er lélegur, og byrjaði að skrapa mosann burt.

Ég hafði ekki unnið í 5 mínútur þegar nágrannarnir fóru að koma til mín, einn og einn í einu. Carla kom fyrst. Sagði mér að það yrði eilífðarverk að skafa mosann og ég myndi líka eyðileggja á mér hnén.
-Ég vil ekki eitra. Kisurnar mínar vappa hér um og auk þess endar eitur alltaf í grunnvatninu, sagði ég.
-Við notum ekki eitur, sagði Carla hneyksluð, við notum soðið vatn og salt.
Svo fór hún inn en kom aftur með stóra saltkrukku sem hún vildi endilega gefa mér. Greinilega ákveðin í að styrkja jákvæða hegðun. Ég þakkaði en skóf mosann samt upp því mér finnst lifandi mosi fallegur en dauður mosi mun ljótari en enginn. Sagði Cörlu að ég myndi svo hella saltvatni í sárin til að hindra mosann í að spretta aftur. Hún var hress með það en hafði orð á því að hnífar væru hættulegir og það væru til verkfæri sem hentuðu betur.

Karlinn á móti kom stuttu síðar með mosaskröpu sem hann vildi endilega lána mér til að ná mosanum úr blómabeðinu. Ég hafði reyndar alls ekki hugsað mér að fjarlægja þann mosa því hann var ekki að kæfa eitt eða neitt en þetta var af svo góðum huga gert hjá honum að ég gat eiginlega ekki annað en tekið við skröpunni. Önnur nágrannakona kom með svampmottu undir hnén og færði mér að gjöf og bað mig endilega að banka upp á ef mig vantaði verkfæri. Conný kom með rafmagnsklippur og klippti lítinn runna fyrir mig, óbeðin. Ég var ekki alveg viss um hvort ég ætti frekar að vera snortin yfir allri þessari hjálpsemi eða pirruð yfir afskiptaseminni en hefði mig grunað að þetta skipti þau svona miklu máli, hefði ég farið út og skrapað upp mosa strax í maí.

Carla var áhugasömust. Kom af og til til að líta eftir verkinu, spyrja hvort hún ætti að færa mér kaffi eða hvort mér væri orðið of heitt eða hvort þetta væri ekki erfitt verk.
-Þetta er ekkert erfitt og gengur vel en mér finnst dálítil synd að plokka upp þessar sterku og þrautseigu plöntur sem eru búnar að hafa svo mikið fyrir því að troða sér upp milli hellnanna, sagði ég og reif Jakobsfífil með eftirsjá upp úr stéttinni.
-Elskan mín, þetta er illgresi, útskýrði Carla.
-Það eru meiri líkur á að maður meiði sig á rósum en fíflum, samt eru fíflarnir flokkaðir sem illgresi, bara af því að þeir láta ekki að stjórn, sagði ég.
-Einmitt, sagði Carla hamingjusöm, það er ekki hægt að hafa stjórn á illgresi. Sjáðu þetta bleika þarna í beðinu, það er líka illgresi, þú þarft að fjarlægja það.
-Já er það virkilega illgresi? Mér finnst það svo fallegt, sagði ég. Carla horfði á mig eins og hún vissi ekki almennilega hvernig hún ætti að segja mér að það væri táfýla af mér án þess að vera dónaleg. Svo klappaði hún mér vinalega á bakið og gekk með mér að blómabeðinu til að útskýra fyrir mér hvaða plöntur væru fallegar og hvaða plöntur væru ljótt illgresi.
-En ef þér finnst illgresið fallegt, þá getum við svosem ekkert sagt við því, sagði hún svo dálítið örvæntingarfull.
-Jújú, ég fjarlægi allt illgresi svona upp á götumyndina en mér finnast fíflar samt fallegir og líka þessi bleiki arfi, sagði ég eins glaðlega og mér var unnt.
Carla horfði ráðvillt á mig andartak en svo var eins og rynni upp fyrir henni ljós.
-Það eru náttúrulega ekki margir garðar á Íslandi, í öllu þessu hraunlendi? sagði hún, rétt eins og hún vildi útvega mér afsökun fyrir heimsku minni.
-Jújú, það eru garðar á Íslandi en ég hef svotil enga reynslu af garðvinnu, sagði ég.
-Nei, ég sé það, sagði Carla en alls ekki af vandlætingu heldur af sannri samúð og horfði vandræðaleg á hnífinn sem ég var endanlega búin að eyðileggja.
-En það er allt í lagi, bætti hún við hughreystandi. Þú spyrð okkur bara ef þú ert í vafa. ALLIR í götunni eru tilbúnir til að hjálpa þér.

Mér finnst dálítið skrýtið að taka svona mikið inn á sig hvernig annað fólk hefur hlutina og ef nágrannarnir væru á mínum aldri, myndi ég sennilega kalla þá uppskrúfað smáborgarapakk og láta mér standa nákvæmlega á sama um þeirra álit á því hvernig ég hef minn garð. Mér finnst samt eldri smáborgarar, sem gera kannski ekki mikið annað sér til dundurs en að dást að fullkomnu götunni sinni, mega vera pínulítið afskiptasamari en aðrir. Það sem stingur mig samt mest er hvað þetta er greinilega af umhyggju, fremur en vandlætingu og ég áttaði mig allt í einu á því að ég á til að hugsa á svipaðan hátt sjálf. Ég á t.d. erfitt með að trúa því að einhver vilji vera róni og ég stend sjálfa mig að því að hugsa ‘eymingja maðurinn, af hverju gerir hann sjálfum sér þann óleik að lifa svona lífi?’ Eða ‘hvað er eiginlega að hjá fólki sem hugsar ekki út i mataræði sitt fyrr en það er orðið 50 kg of þungt?’

Ég held nefnilega að það sé einmitt eitthvað slíkt sem er í gangi. Þau taka sennilega arfann og fílana alls ekki jafn mikið nærri sér og það að vita af ungri manneskju búandi við netlur í malarbeðum og ógeðfelldar mosarákir milli hellna, þekkjandi ekki einu sinni muninn á arfa og yndisblómum. Ég gæti best trúað að þegar ég fór út í búð seinni partinn og veifaði Cörlu og Astrid, þar sem þær sátu við snyrtilega garðborðið hennar Cörlu og drukku ávaxtasafa, hafi þær einmitt verið að varpa öndinni léttar fyrir því að vesælings Íslendingsbjálfanum hlyti að líða betur núna.

Fyrir jólin spurðu nágrannarnir mig stöku sinnum hvort væri engin hefð fyrir jólaskrauti á Íslandi. Conný kom til mín fyrir jólin og baust til að lána mér útiskraut (nóg átti hún til sjálf) en ég, sem er lítið jólabarn, afþakkaði. Fannst nóg að hafa seríu í glugga í nokkra daga og 2-3 útikerti. Ég býst við að ég skreyti eitthvað úti fyrir næstu jól. Svona til að forða eldri smáborgurnum í hverfinu frá því að leggjast í þunglyndi yfir eymd minni.

Best er að deila með því að afrita slóðina