Gerði Facebook út af við bloggarann?

Bloggmenningin breyttist töluvert þegar flestir bloggarar voru komnir með facebook síðu. Facebook er að mínu mati mikil snilld, þrátt fyrir gerviheiminn, gerviblómin og gervirauðvínið, miklu þægilegra að nota fésið til að fylgjast með umræðunni, auðvelt að ná til margra í einu og þarf ekkert rss til að sjá hverjir eru virkir.

Ég hef oft ætlað mér að nota þessa síðu bara undir sápuóperu tilveru minnar. Á tímabili boggaði ég um pólitík og samfélagsmál á mbl.is en einhvernveginn voru pólitík og samfélagsmál svo stór hluti af lífi mínu að það gekk ekkert upp að slíta það úr samhengi við annað efni sem ég var að skrifa.

Facbook síðan mín er eiginlega tekin við því hlutverki sem þessi síða hafði fyrir 3 árum og sápan hefur verið hálf munaðarlaus síðasta árið. Lengi notaði ég hana lítið sem ekkert og á tímabili var ég helst á því ég ætti bara að loka henni og halda mig eingöngu við facebook. Ég var líka hætt að fylgjast með mörgum vefbókum sem ég hafði áður skoðað reglulega, bæði af því að bloggararnir hættu að birta færslur á blogginu eftir að þeir kynntust fb, en líka af því að ég var hvort sem er í tengslum við flesta þeirra þar. Ég hafði samt heyrt hryllingssögur af fb síðum sem hverfa bara eins og kom stundum fyrir hjá blogger og hélt því áfram að vista og birta færslur sem ég vildi ekki glata hérna líka. Mér fannst líka kostur að geta ráðið einhverju um útlit síðunnar en fb býður ekki upp á það svo þessvegna var ég heldur ekki tilbúin til að sleppa sápunni..

Ég var orðin nokkuð viss um að bloggið væri dautt en ég er ekki svo viss um það lengur. Á tímabili var lesturinn á þessari síðu kominn niður í 100 flettingar á dag en svo lenti ég í veseni með fb síðuna. Hún hætti að færa færslurnar héðan inn sjálfkrafa. Ég vildi birta eitthvað sem ég hafði skrifað hér á fb líka svo ég setti inn tengla á hverja færslu. Stuttu eftir að ég fór að gera það, sýni teljarinn álíka margar flettingar og áður en ég varð virk á fb. Hann telur nefnilega flettingarnar sem koma í gegnum tengil á fb en ef færslan er birt sem glósa á fb, þannig að fólk getur lesið hana þar án þess að fara inn á síðuna, þá kemur það hvergi fram nema lesandinn skilji eftir athugasemd. Auk þess verð ég vör við að athugasemdir við færslunar eru frekar birtar á fb en hér. Mín niðurstaða er sú að bloggið sé alls ekki dautt. Fólk les það bara í gegnum fb í stað þess að smella á tengilinn á sinni eigin bloggsíðu eða nota bókarmerki.

Ég er búin að taka út tengla á óvirk blogg enda fylgist ég með flestum þeirra bloggara á fb. Ég reikna með að bæta fljótlega inn tenglum á nokkra sem ég les í gegnum fb.

Best er að deila með því að afrita slóðina