Búsæld

Mér finnst skemmtilegt að finna leiðir til að nýta mat. Kannski óvenjulegt áhugamál í þessu ofneyslusamfélagi sem við lifum í en ég held að heimurinn yrði betri ef fleiri leggðu sig fram um að nýta það sem til er í stað þess að henda nýtanlegum hlutum (og mat) og pína hálfa jörðina til að gefa meira en við þurfum og hinn helminginn til að taka við óendanlegu magni af sorpi.

Systir mín sjálfsþurftarbóndinn á fulla frystikistu af svínabeinum og kemur í minn hlut að finna leiðir til að nýta þau. Það er ekki mikið kjöt á þeim en þau nýtast allavega í súpur og kássur. Bjartur dró að vísu í efa að það væri mikill sparnaður í því fólginn að elda mat sem þarf 4-5 klukkutíma suðu en eftir mínum útreikningum get ég eldað minnst 10 máltíðir fyrir sama verð og ef við myndum kaupa tilbúna, frysta súpu og ég tek frá ókyddað soð handa kisunum. Auk þess er okkar rafmagn framleitt með vindmyllum sem eru vissulega ljótar en hafa ekki óafturkræf umhverfisspjöll í för með sér svo ég hef ekki samviskubit yfir því. Annars er ég að vona að Eiríkur geri alvöru úr því að setja upp hlóðir fyrir mig úti. Gæti orðið stemning að steikja kleinur og baka flatkökur bak við hlöðu á góðum degi með hænsn og gæsir spígsporandi í kring.

Það er mikil hamingja að vera sjálfbjarga um tómata. Ég er einmitt að skoða tómatsósuuppskriftir og svo ætla ég að sjóða gæna tómata niður í kryddlög eins og amma Hulla gerði. Ég var ægilega hrifin af þeim sem meðlæti með kjöti þegar ég var krakki en hef ekki smakkað þá í mörg ár. Hef meiri áhyggjur af því að gefa ekki nýtt salatið. Annars er útlit fyrir að fjárans sniglarnir sjái um það, þeir eyðilögðu svo hryllilega mikið af uppskerunni í fyrra og eru farnir að láta á sér kræla aftur. Ég hef ekkert á móti sniglum sem slíkum en þeir eru of margir til að gæsirnar geti haldið þeim í skefjum. Því miður eru þeir óætir samkvæmt úrskurði sjónvarpskokks sem eldar nánast ALLT, annars myndi ég steikja þá upp úr hvítlaukssmjöri.

Sniglarnir éta ekki rabarbarann og nóg er af honum. Sulta, grautur, saft og ábætisréttir, fleiri hugmyndir einhver? Okkur tókst ekki að nýta nema örlítinn hluta af eplunum hans Bjarts og mirabel ávöxtunum sem vaxa í Hullusveit (sem bragðast nánast eins og plómur en eru minni og ýmist gular eða rauðar á lítinn) síðasta ár en nú er Eiki búinn að kaupa sérstakan pott sem hentar til að sjóða saft og búa til hlaup svo ég reikna með að haf nóg að gera seinni hluta sumars.

Allar hugmyndir um það hvernig hægt er að matreiða svínabein eru vel þegnar. Sömuleiðis snjallræði um nýtingu á ávöxtum og grænmeti. Já og egg. 10-15 egg á dag. Alvöru egg sem bragðast eins og matur, með skærappelsínugulum og kúptum rauðum og þykkri hvítu. Gott mál að baka í frystikistuna en drengirnir verða að hafa magapláss fyrir svínakássuna líka.

Það er gott að búa hér þrátt fyrir afdalaheimskuna sem einkennir starfskerlingarnar á elliheimilinu. Það er hægt að rækta næstum allar nauðsynjar hér, nema súkkulaði og rauðvín en hvortveggja fæst á lágu verði í Þýskalandi. Ég væri samt til í að eiga súkkulaðitré. Get svosem alveg verið án rauðvíns þótt mér þuki það gott. Ég skil ekki þá hugmynd að frelsi felist í því að hafa nógu háar tekjur til að kaupa allt sem manni dettur í hug. Frelsi er í mínum huga miklu frekar það að vera nógu sjálfbjarga til að þurfa ekki að stóla á vinnuveitanda til að hafa ofan í sig. Já og stjórna því sjálfur hvernig maður ver tímanum. Ég ætla að sjóða rabarbarasultu eftir hádegið. Nema sólin fari að glenna sig en þá fer ég með prjónana mína út í garð. Nema ég fái áhugaverðari hugmynd.

Lífið er gott. Svona fyrir utan sniglana.

Best er að deila með því að afrita slóðina