Elías

Vaknaði í morgun á þessum ægilega Elíasarblús. Mér finnst það undarlegt því ég hef ekkert hugsað neitt meira til þín undanfarið en ég er vön og í augnablikinu eru báðir strákarnir mínir og pabbi hérna svo ekki er það af því að mig skorti félagsskap. Kannski hefur mig dreymt þig, ég man næstum aldrei drauma.

Líf mitt líður hjá í fullkomnu tilgangsleysi. Synir mínir uppkomnir og ég hef enn ekki gert neitt sem skiptir máli. Þannig er um flesta býst ég við og það er til marks um andlegan dauða minn að ég er svosem ósköp sátt. Það eina sem þarf til að gleðja mig er að hluti dagsins verði nógu hlýr til að ég geti setið úti með kaffibolla eða hvítvínsglas. Auðvitað hef ég svosem alltaf haft ánægju af því en lengst af vildi ég meira. Smávegis undrun og ögrun. Já og ást. Mig langaði alltaf að vera elskuð. Líklega er það eitthvað í þá veruna sem gerðist í hausnum á mér þegar ég vaknaði. Ég hef fundið fyrir þessari undarlegu þrá eftir einhverskonar örvun, nýju sjónarhorni eða einhverju sem skekur veröldina og klínt tilfinningunni á þig. Æ þú veist, eldgosafréttir eru bara að verða frekar þreyttar.

Já líklega var það bara þannig. Varð hugsað til þín og mundi stóra, hlýja brosið þitt og kallaði það söknuð. Mundi hvernig þú horfðir á mig af samskonar áhuga og dýr og sagðir hvað er að gerast í haunum á þér núna? og fann fyrir ósköp hallærislegri nostalgíu. Og fyrir nokkrum árum hefði ég sett upp dulúðugt bros og svarað út í hött eða bara kysst þig góðlátlega á varirnar en í dag myndirðu sennilega ekki einu sinni spyrja. Ég gæti auðvitað feikað en sannleikurinn er sá að það er nákvæmlega ekkert að gerast í hausnum á mér. Ég meina ekkert, alls ekkert. Í gær ætlaði ég að skrifa ljóð við lag sem ég fékk sent. Ég gerði margar tilraunir en þær urðu allar sama ljóð og síðast, eitthvað voða hallærislegt um beikitré langt í burtu, og þegar systir mín bað mig að útbúa borðkort fyrir fermingarveisluna hans Júlíusar, var það fyrsta sem mér datt í hug að kópera hugmynd sem ég sá einhverntíma á netinu.

Það er rúmt ár síðan ég flutti til Danmerkur og á þessu eina ári hefur mér tekist að drabbast svo niður andlega að ef mér yrði sagt í dag að eftir mánuð verði ég farin að hanga á farmville myndi ég trúa því. Mig langar ekki einu sinni í karlmann lengur. Hélt fyrst að það væri bara tímabundin geðveiki en nú hefur mig ekki langað í kærasta í næstum ár, eða síðan ég afskrifaði garðyrkjumanninn í Grásteinshallargarðinum og svo langur tími hefur aldrei liðið áður. M.a.s. kynhvötin í mér er steindauð og snertiþörf mín sem áður var nánast ósiðleg er ekki lengur neitt sem tveir kettir ráða ekki við. Það eru ekki einu sinni hendur þínar sem ég sakna, mig langar bara að tala við þig, vita af þér nálægt mér.

Kannski er það bara merki um að einnþá sé eitthvað í mér lifandi, eða því sem næst og mér datt í hug að hafa samband við þig, næra þetta eina merki um að ég sé ennþá til. Málið er bara að á hinn bóginn langar mig ekkert í meiri blús.

Best er að deila með því að afrita slóðina