Köttur með smekk

Mér þótti reyndar afar ótrúlegt að Anja væri raunverulega svöng en ekki vil ég svelta dýrin svo til öryggis setti ég dálítið þurrfóður í kattadallinn. Þetta var hræódýrt fóður sem þeim virðist ekki þykja neitt sérlega spennandi og ég nota aðallega í þessum tilgangi, enda reyndist hún ekki hungraðri en svo að hún át aðeins nokkra bita.

Í morgun þegar ég kom fram voru þær enn ekki búnar með fóðrið en ég setti venjlegan skammt af annarri tegund og mun dýrari saman við. Þær komu strax og gúlluðu í sig. Ég fór fram til að setja í þvottavél á meðan þær voru að éta og tók þá eftir því að Norna tíndi bitana af ódýra fóðrinu upp úr dallinum og lagði þá snyrtilega á gólfið við hliðina á honum.

Svo nú hef ég fengið skýringu á því hversvegna þær eiga það til að sóða þurrfóðrinu út á gólf þótt það komi aldrei fyrir þegar þær fá dósamat eða matarafganga. Norna er semsagt bara að henda rusli.

Best er að deila með því að afrita slóðina