Til hamingju Helgi Fel

Enginn er spámaður í eigin föðurlandi.

Ég verð að óska Helga Fel til hamingju með þetta.

Ég hef lítið tjáð mig um þessa mynd opinberlega, finnst dálítið erfitt að leggja mat á verk sem ég er svona mikið tengd. Ég átti von á harðari pólitískri ádeilu og er svekkt yfir því hvað áherslan á kreppuna er mikil. Mér finnst nefnilega kreppan sjálf ekki vera stóra vandamálið, heldur orsakir hennar. Ég er hinsvegar dálítið hissa á því hvað notkun tákna í myndinni hefur fengið litla umfjöllun. Fjárhúsasenan með Bjarna Ármanns er dásamleg, sömuleiðis Jón Ásgeir dreginn á land í björgunarvesti. Kristi kær löggan reynist vera með skallaörninn upp á vegg.

Þótt ég byggist við öðrum efnistökum, átti ég satt að segja von á einhverjum viðbrögðum við myndinni, þótt ekki væri nema frá vinum og ættingjum. Ég hef svotil engin viðbrögð fengið frá Íslendingum en hinsvegar rignir yfir mig tölvupósti og facebook skilaboðum frá útlendingum, einkum Norðmönnum. Ég var hrædd um að ahorfendur myndu fyrst og fremst meðtaka kreppurunkið en líklega hef ég vanmetið almenning. Allavega tala flestir sem hafa skrifað mér um nauðsyn þess að uppræta spillingu og flestir segjast telja að samskonar spilling eigi eftir að afhjúpast í þeirra heimalöndum. Ég vona að þeir hafi rangt fyrir sér. Við getum ekki byggt samfélag á alræði nokkurra kúlulánabaróna.

Best er að deila með því að afrita slóðina