Norna

Ég á kisu sem telur líklegt að panódil sé hið mesta hnossgæti, en var stöðvuð áður en henni tókst að smakka. Hún er ekkert skárri en ungbarn, er algengt að ungir kettir smakki á hreinlega öllu?

Ég hef aldrei áður kynnst ketti sem bragðar á hreinlega öllu. Lauk, rauðvíni, drakúla brjóstsykri.. Hún beit í mandarínu í gær! Börkinn. Hún er líka búin að smakka á öllum blómunum mínum og aðventukransinum. Hún hefur samt ekki mér vitanlega smakkað á neinu hreinsiefni ennþá.

Hún á eðlilega foreldra og systkini en er mjög sérstök sjálf, ofvirk og hugsanlega geðveik. Hvæsti tveggja daga gömul og dró klærnar nánast aldrei inn fyrr en hún var orðin fjögurra mánaða. Hún ‘veiðir’ allt sem hreyfist og er mjög snögg að klóra og bíta. Vill ekki kúra og kela nema hún komi að fyrra bragði hefur þá ekki úthald í það nema 5 mínútur í senn. Klár, getur t.d. opnað skúffur og skápa og forvitin eftir því. Þessi smakk árátta hennar finnst mér samt undarlegust. Ég er með aðra á sama aldri (5 mánaða) og hún lítur ekki við öðru en því sem flestir kettir éta.

Þetta er reyndar mjög fyndið þegar ekki er um banvæn lyf að ræða. Ef eitthvað ætt er sett nálægt henni, stekkur hún til með opið gin og bítur eða svolgrar án þess að þefa eins og flestir kettir. Svo ýmist hryllir hún sig og fitjar upp á trýnið, eða þá, ef það er eitthvað sem hún úrskurðar gott, að hún leitar allra leiða til að komast inn í þá skápa sem það er geymt í. Felur sig t.d. og stekkur svo inn í ísskápinn þegar ég opna hann.Yfirleitt smakkar hún bara einu sinni það sem kettir vilja almennt ekki en hún er vitlaus í kakó.

Best er að deila með því að afrita slóðina