Eitthvað um tré

-Hagkvæmt jú, ég býst við því en ég held nú samt að sambönd gangi ekki upp til lengdar nema fólk sé svolítið ástfangið, sagði hann.
-Nei, það er alveg rétt hjá þér að hagkvæmnissambönd ganga ekki upp til lengdar en ég sé nú ekki að þau gangi neitt frekar upp þótt maður sé ástfanginn. Ég er allavega nokkuð viss um að minn síðasti elskaði mig helling og ekki gekk það upp.
-En var það þá gagnkvæmt?
-Já.
Ortirðu til hans?
-Ekki kannski ljóð en ég skrifaði fullt.
-Það gerirðu nú alltaf en ef þú hefur ekki skrifað ljóð þá segir það kannski eitthvað. Ég held að ástfangið skáld hljóti að yrkja ástarljóð.
-Hjartað mitt. Maðurinn heitir Walter. Veist þú um eitthvað sem rímar við Walter?
‘Að vera með Walter,
vá hvað það svalt er’…
Viltu botna?
-Ok, nú skil ég þetta með Elías, þú orktr til hans út á rímið:
‘Orkti hún kvæði Elíasi
af því hann var svo vel í glasi’… Guð hvað við erum góð skáld.

-Í alvöru, skáldskaparleg afköst mín eru enginn mælikvarði á tilfinningar. Ég orti þindarlaust til Óttars en mannhelvítið samdi líka lög við kvæðin mín. Og Elías, hann hefur áhuga á skáldskap og skilur hann. Að yrkja til manns sem lifir og hrærist í tækni og eðlisvísindum er álíka spennandi og það væri fyrir hann að gefa mér glussaeitthvað eða spindilkúlu.
-Þannig að nú heldurðu því fram að þú yrkir fyrir aðra?
-Ekki kannski ef það er eitthvað um tré, en ástarjátningar eru tilgangslausar ef sá sem maður elskar skilur þær ekki. Þetta er eins og að tala sitthvort tungumálið. Ef ég ætti kærasta sem skilur ekki íslensku myndi ég líklega yrkja til hans á ensku.

-Ég elskaði þessa konu, Af öllu mínu hjarta skilurðu.

-Og hvernig gekk það samband?
-Vel, þar til hún fór frá mér.
-Og hvað klikkaði?
-Við skildum ekki hvort annað held ég.
-Og skilduð í sársauka auðvitað? Sem hvarf svo bara ekkert þótt þið hættuð að hittast.
-Er það alltaf þannig Eva? Fer maður alltaf illa út úr því?
-Já. Nema það sé hagkvæmnissamband.

-Myndirðu yrkja til manns sem þú elskaðir ekki, ef hann hefði gífurlegan áhuga á skáldskap og semdi ódauðleg lög við ljóðin þín?
-Ekki ástarljóð allavega. Kannski svona eitthvað um tré.
-Einmitt, sagði hann þunglega, eins og ég hefði staðfest illan grun.
-Hvað er að brjótast í þér elskan? sagði ég, Fékkstu skiptilykil í afmælisgjöf eða eitthvað svoleiðis?
-Nei það er nú ekki svo gott. Hún orti til mín, eða ég tók því allavega þannig. En eftir á að hyggja var það líklega eitthvað um tré.

Best er að deila með því að afrita slóðina