Arg á elliheimili

Nú eru þessar kerlingabeyglur hættar að bjóða fólkinu kvöldkaffi.
-Af því þau vilja það ekki, var skýringin sem ég fékk. Ég bauð nú samt upp á kvöldkaffi og undarlegt nokk þá afþakkaði það enginn nema ein kona sem vill kaffi stundum og stundum ekki. Hið rétta er nefnilega að þau biðja ekki um það að fyrra bragði og sumum liggur svo rosalega á að komast í pásu til að baknaga vinnufélagana, að þær mega bara ekkert vera að einhverjum snúningum sem hægt væri að komast hjá.

Á fyrstu kvöldvaktinni minni var mér tjáð að það væri óþarfi að hreinsa gervigómana fyrir ósjálfbjarga fólk. Einnig að það væri einfaldast að fela lyfin í matnum ef fólkið væri eitthvað tortryggið því það tæki allt of langan tíma að tala það til. Það er líka óþarfi að sinna þeim hreingerningum sem settar eru á kvöldvakt, því ef eitthvað óvænt kemur upp á má ýta þeim yfir á næturvaktina. Þetta óvænta (t.d. svona ófyrirsjáanlegar uppákomur á borð við að einhver þurfi aðstoð við að fara úr sokkunum eða komast á klósett) gerist svo iðulega þegar þær eru búnar að hanga í pásu í tvo klukkutíma.

Það gekk þó fyrst fram af mér þegar samstarfskona steðjaði inn á deildina og sagðist vera að fara inn til uppáhaldskonunnar minnar.
-Ég er búin að fara inn til hennar með kaffi, hún bað líka um brauð, sagði ég í freðýsutón, frekar fúl yfir því að þessi indæla kona skuli ekki lengur fá kaffi á kvöldin bara af því að hún liggur ekki á bjöllunni.
-Ég ætla að koma henni í rúmið, sagði kerlan.
-Ætlarðu að koma henni í rúmið? Klukkan er ekki orðin hálf níu, sagði ég.
-Hún er vön að fara snemma að sofa, sagði hin.

Við kvöldverðarborðið hafði þessi kona einmitt verið að tala um sjónvarpsþátt sem hana langaði svo að sjá og það hafði ekki farið fram hjá samstarfskonu minni því það var einmitt hún sem fletti upp í blaðinu fyrir hana til að athuga hvenær þátturinn yrði sýndur. Hafði lesið upp hátt og skýrt að hann yrði á dagskrá frá 8-10.
-Það fer nú bara eftir því hver er á vakt. Ég var að tala við hana og hún sagðist vilja fara í rúmið þegar þættinum lyki. Það er ekki fyrr en 10, sagði ég.

Samstarfskonan sneri upp á sig en lét mig ráða. 10 mínútum síðar fann ég hana inni hjá annarri konu sem hafði einmitt líka ætlað að horfa á þáttinn. ‘Stúlkan’ (af einhverjum óþekktum ástæðum sleppa Norðurlandabúar bara ekki tökum á þeirri hugmynd að konur í umönnunarstörfum séu allar ógiftar unglingstelpur enda þótt séu liðin ár og öld frá því að það fyrirkonulag var við lýði) var þá búin að telja þeirri gömlu trú um að hún væri afskaplega þreytt og hálflasin og var komin vel á veg með að hátta hana.

Og þetta eru konur sem eru ekki með elliglöp og ennþá fullfærar um að svara fyrir sig. Þeir sem eru ósjálfbjarga og ófærir um að kvarta yfir meðferðinni á sér búa stundum við það að vera hent í bælið kl 7 á kvöldin og þar sem þeir gera ekki kröfur er þetta sama fólk það sem síðast kemst á fætur á morgnana. Dæmi eru um að fólk liggi í rúminu 15 klst flestar nætur. Svo er það sett í rúmið eftir hádegið. Það er góð ástæða til þess, því það er auðvitað heldur ekkert gott að sitja í sömu stellingunni í hjólastól í 9 tíma í senn en gallinn er sá að nokkrar úr starfsliðinu álíta svo erfitt að hjálpast að við að koma þeim á fætur aftur, að þær bíða til kl 16:30, þegar kemur aukamanneskja á vakt. Þar með eru dæmi um fólk sem liggur í rúminu allt að 19 tíma á sólarhring þegar þær sem verst eru haldnar af kerlingaheilkenninu eru á vakt.

Og eins og gefur að skilja er það ekki vænlegt til vinsælda að hafa orð á því. Ég tek það þó ekki nær mér en svo að freðýsutónninn í mér er í góðri þjálfun þessa dagana.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Arg á elliheimili

  1. ———————————————

    Það er bannað samkvæmt lögum að fela lyf í mat fólks. Bentu þeim á það. Stranglega bannað. Annars kemur þetta ekki á óvart. Hef unnið á svona stað.

    Posted by: Þorkell | 31.08.2009 | 0:26:22

    ———————————————

    Þetta getur ekki verið satt,ertu á Íslandi??? Þessi framkoma er alla vega ekki liðin hér á íslenskum útnesjum – e.t.v. í Reykjavík! Konan mín er dönsk og vinnur við ummönnun gamals fólks. Við fórum til Danmerkur fyrir 15 árum og hún vann eitt ár á „elliheimili“ þar. Eftir þá viðkynningu sagðist hún alls ekki vilja verða gömul í Danmörku!!

    Kveðja,
    Ragnar Eiríksson,
    Sauðárkróki

    Posted by: Ragnar Eiríksson | 31.08.2009 | 0:58:33

    ———————————————

    Hjartað á réttum stað. 🙂 Mikið er gott að lesa þessar gusur. Gott að verða gamall í þínum höndum.

    Posted by: G | 31.08.2009 | 4:47:45

    ———————————————

    Gaman að „heyra“ í þér aftur Eva – ég vona að freðýsutónninn dugi eitthvað. Ég hef unnið á svipuðum stað og veit hvernig þetta getur verið. Gangi þér allt í haginn.

    Posted by: Sliban | 31.08.2009 | 10:37:01

    ———————————————

    Ég vinn á elliheimili í Danmörku. Hef líka unnið á elliheimili á Íslandi og þar voru líka dæmi um kerlingar af þessu tagi. Þetta snýst ekki um Ísland eða útlönd heldur veltur það bara á því hvaða starfsfólk er á vakt hvernig til tekst.

    Keli, það er ýmislegt í heilbrigðiskerfinu sem er bundið í lög sem er ekki alltaf farið eftir. Reyndar finnst mér vafasamt að það sé nokkuð skárra að mylja lyf út í mat svo skjólstæðingurinn sjái þegar um er að ræða manneskju sem er búin að gleyma því eftir 3 mínútur. Alveg sama blekkingin. En þar fyrir er það ábyrgðarlaust að kenna nýju starfsfólki svona vinnubrögð.

    Posted by: Eva | 31.08.2009 | 13:35:13

    ———————————————

    Þetta er gott dæmi um Norrænt velferðarkerfi, þar sem fjölskyldan ýtir umhyggju fyrir þeim gömlu í fjölsklydunni frá sér. Og dæmi um starfsmenn sem hafa ekki snefil af persónuleika, en hugsa aðeins um feitletraða reitinn í launaumslaginu.

    Á margan hátt öfunda ég gamla afdalabændur.

    Posted by: O | 31.08.2009 | 17:05:16

    ———————————————

    Ég er nú reyndar ekki sammála því að það sé merki um umhyggjuleysi þótt gamalt fólk fari á elliheimili. Inni á venjulegu heimili eru engar aðstæður til að hugsa vel um ósjálfbjarga fólk og þeir sem eru heilabilaðir og/eða líkamlega ósjálfbjarga geta ekki verið einir. Það er varla hægt að ætlast til þess að fólk skuldbindi sig til að vera heima allan sólarhringinn árið um kring.

    Posted by: Eva | 31.08.2009 | 20:58:02

    ———————————————

    sammála því að það er næstum engin leið að hafa gamalt fólk á heimilinu, reyndum það einu sinni heima hjá mér og það er því miður bara nærri því útilokað að hafa veikt og illa áttað fólk heima nema maður sé jú tilbúinn að hafa einhvern sem getur séð um viðkomandi næstum því 24/7.

    það er samt ömurlegt að lesa þessar lýsingar, því miður er þetta ekki ósvipað reynslu minni að vinna á elliheimili hér á fróninu.
    sem betur fer voru samt einhverjar með hjartað á réttum stað, keep up the good work!

    Posted by: Fröken | 5.09.2009 | 19:35:31

    ———————————————

    Fyrir um 20 árum vann systir mín á Grund og lýsingarnar voru ekkert ósvipaðar. Þó held ég að fólk hafi ekki verið látið liggja svona lengi í rúminu og þess vegna voru kannski litlar pásur, enda fátt starfsfólk. Lyfin voru falin í ólystugum matnum sem margir leifðu og sumt starfsfólkið kom fram af mikilli óvirðingu við fólkið. Yfirhjúkkan meinaði kulsækinni konu að hafa teppi ofan á sænginni þar sem ekki var kominn 1. sept, eða vetrartími … Systir mín hafði gefið henni teppið af því að hún skalf iðulega úr kulda. Margt fleira í þessum dúr. Vona innilega að ástandið hafi breyst þarna síðan.
    Mikið er ég fegin fyrir hönd fólksins á elliheimilinu að þú skulir vinna þarna. Láttu andrúmsloftið hríma áfram þegar á þarf að halda!

    Posted by: GH | 20.09.2009 | 17:38:10

     

Lokað er á athugasemdir.