Piparkökuhúsið

Piparkökuhúsið hefur staðið autt, hátt á annað ár. Það er í niðurníðslu og athafnasemi fyrri eigenda hefur ekki bætt það. Þau rifu m.a. niður burðarvegg, vindskeiðarnar snúa öfugt og einhver fúskari hefur átt við rafmagnið. Rétt hús á réttum stað en ég kann á málningarpensil og búið svo ef ég ætti að gera það upp yrði ég að vinna yfirvinnu upp á varanlega fýlu hjá kjeeellingunum. Nú eða giftast nokkrum iðnaðarmönnum, helst öllum í einu.

Þar fyrir utan finnst mér ólíklegt að ég vilji vinna á elliheimili til frambúðar og það er auðvitað rugl að kaupa 100 ára hús úti í sveit þegar maður er alls ekki ákveðinn í að setjast að.

En, kannski, kannski, kannski… Um helgina heimsótti okkur maður sem er að leita sér að húsnæði í grenndinni. Það vill svo skemmtilega til að hann er smiður og hefur áhuga á húsi sem hægt er að skipta í tvær íbúðir. Við skoðum það á föstudaginn og ef hann álítur að sé eitthvert vit í að kaupa það, þá má ég taka eldavélina mína með mér.

Best er að deila með því að afrita slóðina