Enginn er fær um að spá

Þegar ég horfi á samstarfskonur mínar í kaffipásunni, sé ég hvernig þær munu líta út um nírætt. Það er öllu erfiðara um það að spá hvernig fólk muni eldast andlega því heilabilun veldur stundum gagngerum persónuleikabreytingum.

Ef Hulla systir mín verður áfram hún sjálf koma elliglöpin út í ofsahrifingu á smáatriðum. Hún mun sitja tímunum saman í sama stól og segja eitthvað á borð við ‘sjáðu blómið! Það er svo fallegt! og brosa eins og hún sé á e-pillum’ Hún mun stöðugt færa einhverjar fagnaðarfréttir á borð við að hún eigi afmæli í dag, að nú séu jólin í næstu viku, að nú sé hún búin að ákveða að mála stofuna eða að hún sé ólétt. Ef hún er ekki ólétt sjálf, þá er læðan hennar ólétt. Hún mun sýna starfsfólki elliheimilisins krot sem hún segir að sé teikning af nýju viðbyggingunni sem hún sé búin að hanna og þar verður sérstök jólatrésstofa eða eitthvað álíka nytsamlegt. Hún mun skilja fötin sín eftir úti um allt og eiga minnst 3 dúkkur sem hún skilur líka eftir á aðskiljanlegustu stöðum. Þegar starfsfólk kemur til að hjálpa henni í bað, mun hún reyna að troða upp á það kæstum hákarli að launum.

Að því gefnu að ég verði kexruglað gamalmenni en haldi samt sama karakter, veit ég líka vel hvernig ég mun verða um 97 ára aldurinn. Ég mun sitja langtímum við tölvu í þeirri trú að ég sé að blogga. Ég mun tala við sjálfa mig og oft koma með einhver fáránleg komment upp úr þurru. Ég verð vesenistinn á deildinni. Að vísu verð ég mjög þægileg að því leyti að ég mun ekki hringja bjöllu nema eitthvað alvarlegt komi fyrir og krefjast óvenju lítillar þjónustu. Ég get alveg átt það til að taka nýju starfsfólki illa en ef það gerist getur sá sami auðveldlega tjónkað við mig með því að gera sér upp áhuga á fornum kveðskap eða spyrja um skoðun mína á einhverju álitamáli í sambandi við málfar.

Það verður ekki vesen að koma mér í bað eða fá að bursta í mér tennurnar. Hinsvegar verður nýtt starfsfólk varað sérstaklega við dugnaðinum í mér. Ég mun sennilega standa í þeirri trú að ég vinni á elliheimilinu, reyndar ekki ólíklegt að ég haldi því fram að ég sé stjórnandi. Starfsfólk má aldrei skilja lykla eftir á glámbekk því kerlingin MUN finna þá og fela. Ef hún nær í lykilinn að lyfjaskápnum mun hún rífa aðra á deildinni upp um miðja nótt og gefa þeim lyfin sín, eða allavega einhver lyf. Það má aldrei skilja þvottahúsið eftir opið því þá fer Eva gamla þangað inn og setur í þvottavél. Lopapeysu, sófapúða og pappírsbleyjur, og allt á suðu. Það má ekki líta af henni eftir hádegismatinn því þá ‘bjargar’ hún matarafgöngum og felur þá í fataskápnum sínum. Hún felur líka óhrein nærföt og annað ógeðfellt. Ég gæti tekið upp á því að faðma alla sem á vegi mínum verða og þá þýðir ekkert að bjóða mér dúkku. Köttur gæti hinsvegar virkað. Ég verð sennilega komin á stjá kl 5 á morgnana og verð áreiðanlega þessi týpa sem drífur í því að koma öllum á fætur. Ef það gerist, réttið mér þá borðtusku og segið að það þurfi að þrífa stofuna fyrst. Ég mun sennilega trúa því,

Málið er bara að hversu vel sem maður þekkir sjálfan sig, þá hefur maður ekki hugmynd um hvernig ellin fer með mann. Ljúfasta fólk getur orðið árásargjarnt, klárt fólk tuggið upp sömu 6 setningarnar í sífellu og snyrtipinnar breyst í sóða. Og það mega afkomendur mínir vita að þótt mér líði ágætlega og ekkert sem réttlæti það mér verði hjálpað til að deyja; ef ég verð á einhvern hátt þannig að það verði kvalræði fyrir ykkur að umgangast mig, þá þurfið þið ekki að gera það. Ekki heimsækja mig af skyldurækni með kvíðahnút í maganum og horfa upp á mig í ömurlegu ástandi. Lifið ykkar eigin lífi og minnist þess að ekkert dýr nema maðurinn leggur sig fram um að halda lífinu í einstaklingum sem eru orðnir ósjálfbjraga af elli.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Enginn er fær um að spá

Lokað er á athugasemdir.