Plastkona

Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni kom til mín í dag og færði mér að gjöf brúðu eina stóra. Kvað það koma til af því að hann hefði ákveðið að gerast plastpokamaður í kreppunni og brúðan, sem er tæpir 2 metrar á hæð en samt með grennri læri en ég, kæmist ekki fyrir í plastpokanum úti í horni á heimili unnustunnar. Hann spurði hvort væri ekki langt síðan einhver hefði gefið mér brúðu en áður en ég gat svarað því bankaði annar gestur upp á svo samræðurnar snerust að öðru.

Það eru líklega 2 ár síðan ég fékk brúðu síðast. Postulínsbrúðu. Ég safnaði postulínsbrúðum um tíma því ég er undarlega viðkvæm fyrir þessum litlu, brothættu stúlkum sem hafa ekki öðru hlutverki að gegna en að vera stofustáss. Allt er í heiminum táknrænt og hlutirnir sem við höfum í kringum okkur segja það allt. Ég hefði getað orðið ein þeirra. Ég valdi mér að vísu annað hlutskipti en ég afneitaði aldrei postulínsbrúðunni í mér og þar sem enginn annar hefur komið henni fyrir í lífi sínu, þá hlaut ég að vilja hafa slíkar brúður í kringum mig sjálf. Nú á ég svo margar postulínsbrúður að ég hef ekki pláss fyrir fleiri. Ég hef reyndar ekki heldur pláss fyrir þetta píkulausa plastferlíki, enda er það svosem ekki hugsað sem heimilisprýði.

-Þú getur kannski notað hana í mótmælaaðgerð, sagði Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni og ég reikna einmitt með að ég geri það. En -það er samt eitthvað dýpra undirliggjandi. Þótt gínan heilli mig ekki hið minnsta hlýtur hún að segja eitthvað um mig eða mitt líf, fyrst hún lenti í mínum höndum. Allt er í heiminum táknrænt og víst er að gjöfin hefur dýpri merkingu en gefandinn gerir sér grein fyrir, ekki síst þegar maður tekur tillit til þess að hann er haldinn táknsýki, ekkert síður en ég sjálf.

Í allan dag hefur meistari afhjúpunarinnar þvælst fyrir mér.

Því þú ert plastkona, plastlíf þitt rís og það hnígur
og plastlíkami þinn, til reiðu er plastmönnum búinn
og plastgleði þín og plastsorg þér raunveruleg
en plastveröld þín, hún er allri fullnægju rúin.

-Já en ég er einmitt ekki plastkona og bý ekki í plastheimi, þvert á móti hefur líf mitt aldrei verið raunverulegra, segi ég og röklega séð ætti andúð mín á dúkkunni að styðja þá hugmynd.
-Kannski ekki. Kannski segir hún bara eitthvað um hann, segir Birtan.
-Gerði það kannski einu sinni en hún er hjá mér núna.
-Losaðu þig þá við hana.

Já, líklega. Já fljótlega. En fram að því er hún hér. Hún horfir ekki á mig því hún hefur engin sjáöldur. Hlustar ekki á mig því hún hefur engar hlustir. Er köld og plastkennd viðkomu. Hefur engar geirvörtur, sköp eða tær.
Plastkona.

Þekki ég einhvern sem er hvorki gerður úr postulíni né plasti? Einhvern sem getur sannað það fyrir mér að ég sé ekki plastkona. Að ég finni til raunverulegrar gleði en ekki plastgleði. Vandamálið er að mig vantar ekki sorg. Ekki einu sinni plastsorg.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Plastkona

  1. ————————————

    Alltaf gaman að lesa bloggið þitt,

    Posted by: Heiðar | 16.01.2009 | 0:27:56

    ————————————

    Plastkomment.

    Posted by: Gasgrímur | 16.01.2009 | 13:10:00

Lokað er á athugasemdir.