Drama dagsins

Ég ætlaði að komast hjá því að taka þátt í verulega asnalegu leikriti. Gaf ekki kost á mér. Ætlaði ekki að mæta á æfingar. Nema hvað, haldiði að leikstjórinn mæti ekki bara heim til mín, með handrit og allt, án þess að gera boð á undan sér eða gefa mér kost á að afþakka hlutverkið.

Ég er ekki einu sinni viss um hverja af þessum afspyrnilegu hallærislegu rullum ég átti að leika en mig grunar að ég hafi líka átt að stjórna kórnum. Það klikkaði því ég söng ekki með. Ekki það að ég kynni ekki lagið, mér finnst það bara ekkert skemmtilegt. Já og ég dansaði ekki heldur. Sat bara sem fastast á mínum stóra rassi og steinhélt svo bara kjafti þegar leikstjórinn reyndi að fá mig til að lesa það hlutverk sem hann ætlaði mér.

Fyrsti þáttur endaði með því að leikstjórinn (sem einnig er í senn handritshöfundur og aðalleikari) rauk á dyr með dramatískum yfirlýsingum en ég held að það atriði hafi ekki verið í handritinu upphaflega. Ég sit eftir á sviðinu og þar með er ég lent í einhverju fjandans hlutverki, án þess að hafa skrifað undir nokkurn samning.

Það verður spennandi að fylgjast með næsta þætti og sjá hvaða hlutverk mér verður þá troðið í gegn vilja mínum. Ég held nefnilega að það sé ekki pláss fyrir fleiri vondar nornir í þessu leikriti og ég hef enga hæfileika til að fara með hlutverk góðu dísarinnar sem bjargar píslarhetjunni úr öskustónni.

Mér liggur of hátt rómur til að geta verið hvíslari en auk þess yrði mér ekki treyst fyrir því verkefni. Myndi áreiðanlega breyta handritinu. Kannski fæ ég bara að vera í miðasölunni.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Drama dagsins

  1. ——————————————

    Mikið finnst mér gaman að lesa svona lykildrama…

    Og velkomin heim!

    Posted by: HT | 5.11.2008 | 15:40:14

    ——————————————

    að vera góður leikari er að vera maður sjálfur. geta breytt sjálfinu. og það er vel hægt fyrir þá sem hafa jafnvægi hugans því þar eru þrír í grunninn.
    gott dæmi um það er jón Gnarr. hann er mjög nálægt jafnvægi hugans.
    aðrir leikarar leika bara eitt sjálf og eru alltaf eins… sennilega spegilmynd af öðrum ýminduðum sjálfum sem speglast í sífellu af áhrifagirninni og hleypa um leið inn margslungnum ákveðnum illum öndum sem hamla því að jafnvægi hugans þrír nái þeim þroska sem til er ætlast.

    Posted by: Garðar (verndari) þór (er ekki guð en er tengdur yfirvitund) bragason ljóða og laga |9.11.2008 | 0:41:59

Lokað er á athugasemdir.