Annar veruleiki

Ég var þarna, þennan dag. Ég sá þetta með eigin augum. Ég horfði á þegar kviknaði í trénu en venjulega brennur aðeins lággróður og mótmælendur ráða sjálfir við að slökkva þá elda. Ég sá slökkviliðið koma á vettvang og ég horfði á herinn skjóta táragasi að sjúkrabílum og slökkviliðinu. Ég sá hvernig þeir beina skotvopnum að börnum, hvernig þeir skjóta svokölluðum gúmíkúlum að óvopnuðu fólki. Ég sést ekki á bandinu en ég er á svæðinu og það var þennan dag sem hermaður náði mér og unglingsstrákar náðu mér frá þeim aftur.

Mér finnst eitthvað svo skrýtið að sjá þetta á myndbandi. Eitthvað svo óraunverulegt. Atburðarásin virðist hæg og hálf leiðgjörn. Maður finnur ekki fyrir streitunni, hjartslættinum, reiðinni. Maður finnur ekki lyktina af gasinu. Maður finnur ekki andþrengslin, logandi sársaukann í augunum og sviðann í húðinni þegar gashylki lendir nálægt manni. Maður finnur ekki lyktina af sínum eigin ótta eða svitataumana renna niður bakið.

Maður horfir ekki í augu drengjanna sem kasta steinum. Maður sér ekki firringuna í gleði þeirra þegar þeir hitta hermann og maður sér ekki lífsreynslusvipinn á þeim barnungum. Maður sér ekki dreng sem fyrir aldur fram hefur yfirstigið óttann, hlutgert sjálfan sig, eins og hann sé áhorfandi að eigin lífi fremur en þáttakandi. Maður skynjar ekki raunveruleikann sem maður veit að birtist í því að næstu nótt eða kannski í næstu viku, verður einhver þeirra rifinn upp úr rúmi, tekinn frá fjölskyldu sinni, lokaður inni og pyndaður í allt að þrjá mánuði áður en honum verður kynnt sakarefnið.

Og þess vegna horfir heimurinn sljór á svona myndbönd. Þau sýna ekki, og geta ekki sýnt, það sem hendir mannsandann sjálfan við slíkar aðstæður.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Annar veruleiki

  1. ————————————————

    Sæl Eva,
    Gott að þú ert komin heim heil á húfi.
    Ég fann tárin þrýstast fram þegar ég las þessa færslu. Ég reyni að ímynda mér hvernig það sé að búa við slíkar aðstæður og ég dáist enn að hugrekki þínu fyrir að fara og horfast í augu við óréttlæti heimsins og reyna að storka því. Þakka þér fyrir að deila reynslu þinni og ég skal svo sannarlega kaupa bókina þína, lesa hana og auglýsa!
    Gangi þér vel við að storka Mammoni og njóttu vetrarins á Klakanum!

    Posted by: Ása | 6.11.2008 | 0:08:52

    ————————————————

    ég er að bíða eftir að þú skrifir meira. mig langar að gera tjasur við það.

    Posted by: gaddi | 14.11.2008 | 10:07:03

Lokað er á athugasemdir.