Aldrei aftur Chernobyl

Stefán grillaði lúðu handa mér í kvöld. Drukkum Riesling sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Mér þykir vænt um fólk sem eldar ofan í mig.

Kertafleyting á tjörninni. Tíbet á morgun en við minnumst Chernobyl í kvöld.

Einn útsjónarsamur, á að giska 11 ára hefur tekið með sér stígvél og prik og ýtir út kertum sem hafa strandað við bakkann. Annars sé ég fá börn. Aðallega fullorðið fólk með regnhlífar. Þegar ég var lítil átti pabbi regnhlíf en ég man aldrei til þess að hún hafi verið notuð. Ég gerði tvisvar sinnum tilraun til þess. Í fyrra skiptið var ég reyndar að leika Mary Poppins og komst þá að því að hennar reghlíf hefur víst verið öllu sterkari en regnhlífin hans pabba míns, sem úthverfðist áður en ég var komin niður af veröndinni. Í seinna skiptið sannfærðist ég endanlega um að reghlífar væru eingöngu notaðar í bíómyndum og barnabókum.

Það rigndi alltaf lárétt í minni sveit, segir Stefán, en rigningin er svo hlý og gróðurilmurinn svo ágengur að við megum til að staldra aðeins lengur. Að lokum röltum við heim, hárið á mér orðið gegnvott og droparnir renna niður um hálsmálið og kitla.

Sumarið varð öðruvísi en ég átti von á. Ekki verra, og þegar á heildina er litið jafnvel betra en engu að síður eru ákveðin svið tilveru minnar geislavirk. Chernobyl slysið átti sér stað þann 26. apríl. Og þar sem ég er galin sé ég merkingarsamhengi þar sem ekkert orsakasamhengi er til staðar.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

1 thought on “Aldrei aftur Chernobyl

  1. ———————-

    lúða er góð, geislavirkni vond.

    vildi að við hefðum séð þig í gærkvöld, ljósin voru töfrandi í rigningunni..

    Posted by: baun | 7.08.2008 | 10:50:18

Lokað er á athugasemdir.