Fyrir vonlausan málstað

Sit með vinkonu, drekk rósavín með lakkrísröri og reyni að útskýra hversvegna sumt fólk vill endilega berjast fyrir vonlausan málstað.

Maður getur haldið því fram að það sé ekki vonlaust. Maður getur bent á að flestir sem háðu baráttu gegn þrælahaldi, kvennakúgun og aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku, dóu án þess að sjá árangur af bröltinu í sér. Það skilaði samt árangriá endanum. En það er satt, maður bjargar ekki heiminum og það er huggulegra að grilla og drekka rósavín með lakkrísröri en að hanga utan í vinnuvél eða stöðva börn á átakasvæðum í því að grýta hvert annað.

Það er áreiðanlega mjög galið að finnast það eftirsóknarvert. Reyndar svo galið að það er ekki hægt að skýra slíkt fyrir fólki sem skilur ekki hugmyndina um manngildi. Þá hugmynd að örmaur á jörðu sem á góða möguleika á að ná níræðu, sé bara ekkert merkilegri en annar örmaur sem mun sennilega deyja á morgun. Það er heldur ekki hægt að útskýra hugmyndina um að gott líf felist í því að gera fremur en að njóta, fyrir þeim sem álíta að góð manneskja sé hver sá sem drepur engan af ásetningi.

Þú valdir þér þægilegt líf. Vinna, sinna fjölskyldunni, fara í sumarbústað, ræktina, halda árshátíð og afmæli, sitja á kaffihúsi, rækja áhugamál, hitta vini, vinna meira…

Ég gerði það líka. Það er ekki rangt að vilja gott líf. En ég finn samt, alveg eins og þú, fyrir þessu nagandi samviskubiti vegna þess. Það þjónar ekki tilgangi að finna til sektar en hún er þarna samt. Jafnvel þótt ég dæi fyrir einhverja hugsjónina, reikna ég að samviskan myndi elta mig í gröfina.

Það er ekki hægt að gera samviskunni til geðs, ég veit það, en það er ekki þar með sagt að það sé æskilegt að hætta bara að hlusta á hana. Ég veit að þú telur þig ekki hafa sérstakt vit á skáldskap en ég veit líka að þú ert ekki fáviti. Jóhannes úr Kötlum er í uppáhaldi hjá mér og gerðu það nú fyrir mig að lesa þetta erindi; þetta eina erindi úr Sóleyjarkvæði og taka við sársaukanum í stað þess að líta undan á meðan þú klastrar plástrum á sárið:

Bóndi tautaði: Margur verður
að bera hlekki
og meiningin er að hér á ég heima,
en heiminn lítið ég þekki
og grípa fram í hans gang
-það geri ég ekki.

Elskan, ég er ekki að biðja þig að grípa fram í gang veraldarinnar. Ég er ekki að biðja þig að fara í forsetaframboð. Ég er ekki einu sinni að biðja þig um veikburða tilraun til áhrifa. Ég bið þig ekki að hlaupa inn á flugbraut, vinna sjálfboðastarf, gefa peninga til líknarmála, skrifa blaðagrein, kommenta á blogg eða mæta á mótmælafund.

En ég bið þig um að opna augun og horfa á það sem er að gerast fyrir framan nefið á þér, áður en þú ákveður að það sé tilgangslaust hugga eina sál í eina mínútu eða bjarga einu lífi í einn dag.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Fyrir vonlausan málstað

  1. —————————————
    Með herkjum tóxt mér að komast framhjá myndinni af rósavíni drukknu í gegnum lakkrísrör.

    Góð hugvekja!

    Posted by: Varríus | 26.07.2008 | 18:43:45

    —————————————

    Þú rúlar!

    Posted by: Hulda H. | 26.07.2008 | 18:56:41

    —————————————

    Ég var að lesa Jón Val á mbl blogginu. Mín aldeilis búin að taka klerkinn í nefið.

    Þú ert æðisleg 🙂

    Posted by: Helga B. | 26.07.2008 | 22:19:19

    —————————————

    Maður reynir…

    Posted by: hildigunnur | 27.07.2008 | 0:23:38

    —————————————

    Og þar nefnir þú innistæðuna.

    Posted by: Drengurinn | 30.07.2008 | 5:51:02

Lokað er á athugasemdir.