Sár

Einhvern tíma las ég sjálfsræktarbók sem ég man nú ekki mikið eftir, hvorki nafnið né höfundinn. Þó var í henni ein samlíking sem mér finnst virkilega góð.

Höfundur hugsar sér samfélag þar sem allir þjást af hræðilegum húðsjúkdómi. Allir eru alsettir sárum. Allir þrá snertingu en þegar fólk snertist verður sársauki beggja svo mikill að þau þola ekki við, reiðast jafnvel og hrinda hvort öðru frá sér. Sviðinn og þörfin fyrir snertingu togast sífellt á.

Þegar heilbrigð manneskja kemur inn í slíkt samfélag og ætlar að bera smyrsl á sárin, þá treystir fólk henni ekki. Það svíður ennþá meira undan græðandi smyrslum hennar en snertingu annarra og þar sem það hefur enga reynslu af því að vera heilbrigt, þá vill það ekki ganga í gegnum enn meiri þjáningu á meðan smyrslið er að virka. Þegar heilbrigða manneskjan hörfar ekki undan snertingu sjálf, þá þykir það óeðlilegt. Jafnvel þegar einhver snertir hana í þeim tilgangi að meiða hana, finnur hann aðeins til sjálfur.

Og ég horfi á þig. Þekki þjáningu þína. Veit að sál þín er flakandi sár og þótt ég sé ekki fullgróin sjálf, veit ég þó allavega hvað virkar. Ég veit líka að sviðinn undan smyrslinu varir ekki lengi og ég veit að þín sár eru of stór og of djúp til að gróa af sjálfu sér.

En líklega gæti ég alveg eins boðist til að hella yfir þig salti.

Best er að deila með því að afrita slóðina