It’s a jungle out there

Og hvað merkir það þá að vera góð manneskja? spyr ég en hann getur auðvitað ekki svarað því. Líklega leggur hann gæði og þægindi að jöfnu. Sjálfsagt finnst honum góð manneskja vera sambærileg við góðan bíl, þægileg til reiðar, lætur vel að stjórn og tekur á sig skellinn ef kemur til áreksturs. Heldur útliti sínu nokkuð vel með góðri umönnun og gerir ekki kröfur umfram eldsneyti og reglulega smurningu.

Þegar maður er kominn yfir það að falla fyrir fávitum, er næsta skref að læra að passa sig á góðu gæjunum. Þ.e. þeim góðu gæjum sem halda sjálfir að það að vera góð manneskja snúist aðallega um að gera öðrum til hæfis. Ég skil hugmyndina en ég hef aðrar þarfir sjálf. Ég geri ekki miklar kröfur um þægindi en ég vil vita hvar ég hef þá sem mér þykir vænt um. Mér finnst góð manneskja einkennast af heilindum og hugrekki. Ég vil að fólk segi það sem það meinar og meini það sem það segi, ég vil að maður geti átt von á sæmilegu samræmi milli orða og athafna.

Ég ber lítið traust til þess sem þykist vera mér sammála þegar hann skortir hugrekki til að takast á við ágreining, þorir ekki að taka afstöðu til hluta sem skipta máli af ótta við að missa andlitið og telur bestu leiðina til að halda stolti sínu vera þá að viðurkenna aldrei mistök.

Auk þess er beint samband milli heilinda og hugrekkis og sterkrar sjálfsmyndar. Það er auðvelt að missa virðinguna fyrir þeim sem hleypir engum að sér af ótta um að koma upp um sig, þó svo hann hafi enga skömm að fela, veldur misskilningi með þögn sinni af ótta við að særa aðra þótt orðheppni hans sé undir frostmarki og er stöðugt hræddur um að missa andlitið, þó svo hann hafi andskotans ekkert andlit að missa.

Best er að deila með því að afrita slóðina