Fress

-Jæja. Ertu búin að fagna endurheimt kynhvatar þinnar? spurði Grái Kötturinn.
-Það er aldeilis að þú kemur þér að efninu, hnussaði ég.
-Mjaaat, Ég kunni ekki við að tvístíga í kringum grautarpottinn og mér finnst mér koma þetta við.
-Jæja, og hvernig rökstyður þú það?
-Ja ef þú ert ekki búin að því, þá var ég að hugsa um að fagna með þér, svo augljóslega kemur mér það við.
-Nújá, svo þú ætlar að fagna með mér? Ert þú sumsé búinn að endurheimta glataða kynhvöt?
-Nei en ég er búinn að endurheimta glataða vinkonu.
-Þú ert fádæma orðheppinn.
-Úps!

-Málið er að þótt ég sé reyndar ekki glötuð vinkona, þá er samt rosalega glötuð kynvera.
-Nú, fór fögnuðurinn út í eitthvað rugl?
-Nei, það varð ekkert af neinum fagnaðarlátum. Girndin í mér stoppaði ekki nema í korter og hvarf svo aftur. Hversu glatað er það?
-Töluvert glatað ef þú hefur haft einhvern í sigtinu.
-Nope.

-Við getum fagnað samt.
-Fagnað hverju?
-Við getum fagnað því að vergirnin sé ekki að angra þig, svona rétt á meðan þú hefur engan í sigtinu.
-Ég hef auðvitað ástæðu til að gleðjast en hversvegna vekur náttúruleysi mitt þér fögnuð, gæskur?
-Það vekur mér kannski ekki beint fögnuð. Mig langar bara í ís og er að reyna að finna afsökun til að draga þig út til Sjoppmundar.
-Ok, þú ætlar að fagna náttúrleysi mínu með ís. Hefðirðu þá fagnað losta mínum með því að bjóða mér í kappútsínó?
-Nei. Ís að sjálfsögðu, til að kæla þig niður.

-Geturðu sagt mér eitt? Hvers vegna er ég að ræða náttúruleysið í mér við þig?
-Af því að ég er góður strákur og þú treystir mér?
-NEI.
-Ókídókí, ég er hlandstaðið fress en þú ert heldur ekkert að ræða náttúru þína eða náttúruleysi við mig. Þú bara ferð í kringum það, eins og köttur í kringum heitan graut.
-Hey! Þú spurðir, sagði ég móðguð
Jamm, sagði Grái Kötturinn og malaði. Svo sleikti hann á sér loppuna og þvoði sér á bak við eyrun.

Best er að deila með því að afrita slóðina