Bara að gá…

Birta: Heldurðu að geti verið að kynhvötin í okkur sé dauð?
Eva: Nei, ég hef nú enga trú á því, þetta er líklega bara lægð.
Birta: Endast lægðir virkilega svona lengi?
Eva: Það hlýtur að vera. Eða ert þú kannski með girndarauga á einhverjum?
Birta: Nei. Alls ekki. Heldurðu að þetta sé eðlilegt?
Eva: Æ bíddu bara. Eftir nokkra daga eða í mesta lagi nokkrar vikur verðurðu farin að kvarta undan því að við séum með óeðlilega mikla kynhvöt. Það er áreiðanlega normalt að hafa ekki áhuga í nokkrar vikur.Birta: Við ættum samt kannski að ganga úr skugga um það? Til öryggis.
Eva: Hvaða öryggi væri í því?
Birta: Bara þú veist. Vera öruggar um að við séum ekki búnar að missa áhugann endanlega. Við þyrftum ekkert að láta vaða, enda myndi ég nú ekki nenna því. Ég meina bara svona að gá hvort er hægt að koma okkur til. Athuga hvort við erum orðin uppþornuð piparjúnka.
Eva: Njaaat… við nennum nú ekki að fara heim og mála okkur og standa svo í einhverju eymdar hösli á börum borgarinnar fram eftir nóttu, bara svona í tilraunaskyni. Það er lágmark að hafa áhuga til að leggja það helvíti á sig. Hvað þá að ætla að hætta í miðju kafi. Hvaða karlmaður heldurðu að sætti sig við það?

Birta: Hmmm… Ég er að hugsa… Ungir menn eru hlýðnir. Kannski ekki við lögin en áreiðanlega í rúminu. Við gætum tekið einn og baðað hann.
Eva: Nei góða mín, við erum ekki að fara að forfæra einhvern anarkistahvolp, bara til að gá hvort kynhvötin í okkur sé dauð. Ekki einu sinni þótt okkur tækist að reka hann í sturtu fyrst og svo heim áður en nokkurt fallerí nær fram að ganga.
Birta: Nei það er líklega rétt. Líklega ættum við bara að fara heim að sofa.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina