Dansur

Ingólfstorg á sunnudegi. Fólk að dansa. Mér líður eins og Færeyingi. Hvað er ég eiginlega að gera hér? Af hverju er ég ekki hjá Garðyrkjumanninum? Að vísu fékk ég háklassa handsnyrtingu í gær en ég næ sambandi við mold og hann myndi útvega mér latexhanska og blístra ‘Liljan fríð’ á meðan hann mokaði skít upp í hjólbörur, eða hvað það nú annars er sem garðyrkjumenn gera. Ég gæti kennt telpunni hans að steikja pönnukökur og ég myndi finna ástúðlegt augnaráð hans á hnakkanum, þar sem ég stæði við eldavélina. Og hann yrði svo fullkominn og skilningsríkur að ég þyrfti ekki að útskýra að þótt kona klæðist kjólum og líði vel í eldhúsi, merki það ekki að hún ætli að ættleiða allar hans skoðanir eða brosa og blaka augnhárunum ef hann vogar sér að kalla hana dúllu eða eitthvað álíka. Honum myndi ekki einu sinni detta það í hug og honum þætti æðislegt að þurfa ekki að kenna mér að flokka sorpið.

Hann myndi tékka á olíunni fyrir mig áður en ég færi heim, ekki af því að þurfi að gera það heldur bara til öryggis, af því að alvöru karlmenn sýna umhyggju án þess að hafa sérstaka ástæðu til þess. Hann myndi vísast senda mig heim með rósir. Ekki rauðar, ekki strax en líklega gular eða bleikar. Vitanlega undir því yfirskini að hann geti aldrei selt þær allar hvort sem er. Ég myndi taka við þeim ofurlítið undirleit, ekki af því það sé mér eðlilegt heldur af því að það myndi hræða jafnvel hugrakkasta mann ef ég missti mig í móðursýkislegt grátkast út af nokkrum rósum og ekki vill maður nú gera þessar elskur óöruggar. Svo myndi ég þakka pent fyrir daginn og blómin ‘ef þú ert viss um að þú munir annars henda þeim’ en brosa brosi þeirrar sem samt sem áður veit betur, um leið og ég kveddi hann undir sígandi sól. Ég myndi setja veskið mitt í aftursætið til að forða mér frá því að skoða símann undir stýri ef ég skyldi fá sms á heimleiðinni og þegar ég væri komin í rúmið, myndi ég máta tilhugsunina um hönd hans yfir úlnliðnum á mér og verða mjúk inni í mér.

Það hlýtur að vera mjöööög góð ástæða fyrir því að ég er ekki þar, því hér sit ég ein í tröppunum á Ingólfstorgi og velti því fyrir mér hvernig maður segi rassgat og alnæmi á færeysku. Enskur dansur. Herregud, ég segi nú ekki annað. Og þarna kemur Anarkistinn gangandi ásamt dóttur sinni. Ég er svo vön því að sjá hann á reiðhjóli að ég þekki hann varla fótgangandi en hann er, fjandinn hafi það, búinn að taka eftir mér.

-Er Hallærisplanið staður þar sem fólk safnast saman til þess að vera hallærislegt? segir Anarkistinn.
-Svo er helst að sjá, segi ég og verkjar ennþá meira í Færeyinginn og áður, því ég heyri bókmálið hjá sjálfri mér. Eftir að ég fór að venja komur mínar á Facebook hef ég orðið þess vör að það þykir merki um afkaplega alvarlegan og hátt stemmdan karakter að geta tjáð sig á nokkurnveginn skammlausri íslensku, allavega ef maður dritar ekki LOL eða brosköllum í aðra hverja línu. Ég get þó allavega huggað mig við að Anarkistinn er sennilega nógu illa haldinn af alvarleika sjálfur til að ráða í þetta dulmál mitt án þess að fletta upp í orðabók.

Hann kveður strax og nú er það Tammy Wynette –‘Stand by your man’, einkar gamansamur dansur, -eða ekki. Drepið mig ekki með væmninni en Tammy slær einhvern viðkvæman streng í brjósti mínu og það út af fyrir sig veldur mér meiri velgju en tónlistin, textinn og dansinn samanlagt, nú væri ég til í að gera samning við Djöfulinn um að láta mig hverfa án þess að þurfa að standa upp og hugsanlega vekja athygli einhvers til viðbótar við Anarkistann á veru minni hér.

-Dansa?
Nei. Drepið mig nú ekki alveg! Lít upp á skælbrosandi taðskeggling. Hann er sýnilega hvorki blindur né heyrnarlaus, og virðist full alvara með boðinu en samt er hann hvorki með kúrekahatt né á færeyskum brókum.
-Takk, það er vinsamlega boðið en ég er hrædd um að ég sé lítill samkvæmisdansari get ég sagt þér. Ég kann sporin en það er ekki hægt að stjórna mér. Viltu ekki frekar setjast hjá mér?
Taðskegglingurinn þegir smá stund, sest ekki en virðir mig fyrir sér af talsverðum alvarleik, brosir svo aftur og gerist nú nokkuð sposkur.
-Heldurðu virkilega að ég geti ekki stjórnað einum kvenmanni? … Og þótt hún sé norn? 
-Hrmpffrr… þekkjumst við? segi ég og tek andlitið upp af stéttinni og kem því fyrir framan í mér aftur.
-Neei, ekki ennþá, 
segir hann. Það hefur víst ekkert farið fram hjá honum að ég missti andlitið og ósvífnin í augum hans gefur mér tilefni til ofanísetningar.
-Og hvað ert þú eiginlega gamall gæskur, með leyfi að spyrja? segi ég í kennaratón.
Hann horir á mig smástund, eins og hann sé að máta nokkur mismunandi svör en yfirvegaður þó.
-Eldri en þú heldur, litla norn, segir hann svo, alveg hæfilega hofmóðugur.

Og andartaki síðar er mér kippt upp af Færeyingnum á mér og inn á Hallærisplanið. Amerískur dansur; ‘There’s a world full of men, and I can take them or leave them’, hvernig í fjandanum stendur á því að ég kann alla þessa hræðilegu texta utanað?

Best er að deila með því að afrita slóðina

1 thought on “Dansur

 1. ———————————————————
  Það þýðir nú ekki að sitja sem fastast á Færeyingnum þegar dillandi músik er annars vegar. Að ég tali nú ekki um þegar skælbrosandi taðskegglingur biður um hönd manns í dansinn.
  Kær kveðja,

  Posted by: Ragna | 8.06.2008 | 23:26:52

  ———————————————————

  Ég heyrði í músíkinni á Hallærisplaninu, þar sem við bóndinn komum niður gegn um Grjótaþorpið. Beygðum prontó í hina áttina…

  Posted by: hildigunnur | 9.06.2008 | 0:27:06

  ———————————————————

  Síðan fórum við í Kolaportið. Þar inni fór ég óvart að söngla gamlan Hank Williams-slagara, Jambalaya (On the Bayou)

  Good-bye, Joe, me gotta go, me oh my oh Son of a gun, we’ll have big fun on the bayou.
  sennilega vegna þess að hann var í kvikmyndinni Blaze í sjónvarpinu kvöldið áður. Síðan þegar ég fer aftur á hið hallærislega plan er fólkið farið að dansa við þetta sama lag.

  Ég fór að líta í eigin barm; ég hef dottið niður á hallærislegt plan.

  Posted by: Elías | 9.06.2008 | 0:44:56

  ———————————————————

  Ég hefði betur drifið mig fyrr út í göngutúrinn minn í gær.

  Posted by: Unnur María | 9.06.2008 | 13:10:47

Lokað er á athugasemdir.