Púss

-Af hverju ertu svona treg til að birta myndir?
-Ég er ekki viss. Kannski af því að þetta er míns eigins blogg og mér finnst eitthvað óþægilegt við að birta efni annarra hér. Eins og að bjóða fólki að skoða í skápana hjá einhverjum öðrum.

-Þú birtir heldur aldrei myndir sem þú tekur sjálf. Eins og af fjölskyldu og vinum.
-Ég tek mjög sjaldan myndir og kannski er það vegna þess að ég hugsa svo miklu meira í orðum en myndum en ég kann heldur ekkert á fótósjopp.
-Vá, leim exkjús, hvaða ástæða er til að fegra myndir?
-Óunnin ljósmynd er eins og illa stílaður texti. Vanur ljósmyndari nær kannski myndum sem eru birtingarhæfar en amatörar þurfa oftast myndvinnslu til að myndirnar verði eitthvað meira en heimild um hvað maður var að gera þann daginn. Alveg eins og texti. Hugsaðu þér t.d. ef ég tæki samtölin okkar og birti þau hrá, með öllu málfarsklúðri, útúrdúrum og hikorðum. Það gæti kannski verið ágæt heimild um það sem okkur fór á milli en hver heldurðu að nennti að lesa þann hroða?
-Ég skil hvað þú meinar, þú ert alltaf að reyna að gera lífið að listaverki. Ég skil hinsvegar ekki hversvegna þú ert alltaf að stílisera lífið, því mér finnst það nógu áhugavert eins og það er. Þetta er dálítið eins og öfug yfirborðsmennska hjá þér. Það þarf allt að vera svo djúpt að það snýst upp í leikaraskap.
-Lífið er leiksýning elskan. Sápuópera. Þér finnst þitt líf áhugavert af því að þú lifir því sjálfur og þér finnst mitt líf áhugavert vegna þess einmitt að ég stílisera það. Sjáðu til, það sem maður upplifir er aðeins öðruvísi en frosið augnabilk sem einhver sýnir manni eftir á. Svolítið eins og eitthvað sniðugt sem einhver sagði en virkar ekki fyrir aðra en þá sem voru á staðnum. Ef ég t.d. birti óunnar myndir af mér þar sem ég er skellihlæjandi, þá yrði fólk bara hrætt við mig.
-Já, þú ert náttúrulega alltaf að gæta þess að enginn verði hræddur við þig!
-Jújú, ég vil mjög gjarnan að fólk sé hrætt við mig, sérstaklega teprulegir karlmenn en kannski ekki rétt á meðan ég er að hlæja.
-Eva hættu þessu kjaftæði, þú ert falleg þegar þú hlærð.
-Auðvitað er ég falleg þegar ég hlæ, allir eru fallegir þegar þeir hlæja. Málið er að ljósmynd nær ekki alltaf hlátrinum. Ég hef t.d. þann hallærislega kæk að rífa í hárið á mér og halla höfðinu aftur þegar ég hlæ svo hláturmyndirnar sýna tannfyllingarnar og hálskirtlana í mér óþarflega vel. Svo ef ég ætti að taka mark á myndinni þá myndi ég halda að það færi mér bara ekkert sérstaklega vel að hlæja.Sjáðu. Það er þetta sem ég á við.hlæjhlæj2

-Uhh, mér finnst þú líka falleg á þessari í fjólubláu peysunni.
-Það er af því að þú þekkir mig. Og þessi er reyndar mjög góð. En sjáðu bara, þú ert ekki í neinum vafa um það hvor þeirra er unnin. Önnur er bara svo miklu fallegri en hin.

Önnur myndin er hrátt augnablik. Hin er tekin frá svipuðu sjónarhorni en ég sat á höndinni á mér og myndin er fínpússuð með fótósjopp. Fyrir utan það náttúrulega að þar er búið að farða á mig andlit.
Önnur er sannleikur. Hin sannleikur í neytendaumbúðum.

Hversu áhugavert er óstíliserað líf?
Og, mikilvægari spurning? Er óstíliserað líf í alvörunni meiri sannleikur? Þegar allt kemur til alls þá nærðu aldrei augnablikinu nema upplifa það sjálfur.

-Þú birtir þetta samtal á blogginu þínu er það ekki?
-Kannski.
-Ég þori að veðja að þú ætlar að enda það á orðunum: þú elskar mig líka.
-Þú ert spámaður yndið mitt. Þú elskar mig líka.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Púss

  1. ——————–

    Humm. Eg skil thetta sem svo ad myndin i fjolublau peysunni se su sem ekki er fotosjoppud. Mer finnst hun miklu vidkunnanlegri einhvern veginn.

    Og bara svona fyrst thetta bar a goma og alveg an thess ad eg se ad reyna ad hafa nokkur ahrif, tha held eg ad thad vaeri ekkert svo vitlaust ad birta myndir.

    Posted by: Haukur | 14.05.2008 | 11:43:38
    —   —   —

    Sammála Hauki. Finnst myndin af þér í fjólubláu peysunni miklu flottari. Báðar góðar samt.
    Skil ekki fótósjop, en það gerir mann fallegan á myndum ætti ég að fá mér eitt stykki svoðeilis.

    Posted by: Hulla | 14.05.2008 | 13:27:03

    —   —   —

    fótósjopp, pótósjopp. ekki kann ég á svoleiðis og birti bara myndir eins og þær koma af skepnunni (myndavélinni minni).

    og mér finnst þú sæt á báðum myndunum.

    Posted by: baun

    —   —   —
    Bara mjög flottar myndir 🙂

    Posted by: Guðjón Viðar | 14.05.2008 | 16:23:08
    —   —   —

    Ég var að vísu að vona að myndirnar hennar Önnu væru ekkert sjoppaðar, bara gott meiköpp því ég ætlaði þá að borga henni fyrir að punta mig fyrir fancy tækifæri- en ég er samt ekki fáviti. Það er samt svo skrítið að maður er sjálfur ekki ánægður með að það sjáist í hrukkurnar, baugana og allt þetta skakka sem gerir okkur að okkur – en flestum öðrum finnst þetta allt saman yfirleitt ljómandi fínt. Þú ert flott kona. Basta

    Posted by: lindablinda | 14.05.2008 | 18:05:59

    —   —   —

    Það er mjög ósanngjarnt að bera þessar tvær myndir saman, sérstaklega í ljósi þess að mig grunar að þessi fyrir ofan sé örlítið photoshoppuð líka.

    Ég var byrjuð að fikta smá í litunum, ekki mikið, en átti eftir að setja liti aftur inn. Get sýnt ykkur before and after mynd ef Eva vill og þegar ég hef tíma.

    Myndirnar eru þar fyrir utan allt of ólíkar til að bera saman á þessum grundvelli, hvort sem þær eru photoshoppaðar eða ekki – enda veit engin hvað sú neðri er mikið meðhöndluð og hvernig.

    Hún er nefnilega ekki mikið sjoppuð, fyrir utan liti.

    Önnur myndin er af konu sem er lítið sem ekkert til höfð, hin er af konu sem er mjög pródúseruð (pre photoshop). Báðar myndirnar sýna hinsvegar konu sem er mjög falleg þegar hún hlær, hvort sem hún er máluð eða ómáluð 🙂

    Posted by: anna | 14.05.2008 | 18:34:16

    —   —   —

    Mér finnst þú ferlega sæt. Hlakka til að fá að sjá þig í raunheimum einn góðan veðurdag.

    Posted by: Kristín | 15.05.2008 | 12:46:55

    —   —   —

    Þær eru báðar fallegar af því þær eru af fallegri konu í góðu skapi. Hef ekki enn fengið hinar.

    Posted by: G | 18.05.2008 | 9:42:09

Lokað er á athugasemdir.