Um öryggi og frelsi

Freedom is just another word for nothing left to fuck up. Ég man ekki hver sagði það en það er ekki eins satt og það hljómar.

Lengi hélt ég að öryggi og frelsi færu ekki saman. Sú skoðun var byggð á reynslu en ég hafði aldrei notið alvöru öryggis og sá ekki mjög langt fram fyrir nefið á mér. Seinna sá ég að öryggi og frelsi eru ekki andstæður. Hið veraldlega afhjúpar hið andlega og til að njóta fjárhagslegs frelsis þarf maður fyrst fjárhagslegt öryggi. Sé það rétt hjá mér að hið veraldlega hafi tilfinningalega merkingu; komi upp um sálina, þá á það sama við um ástina.

Vandamálið er hins vegar að þótt mikið öryggi veiti manni frelsi þá er smávegis öryggi líklegra til að hindra mann. Ég bý við veraldlegt öryggi miðað við flesta jarðarbúa en í okkar samfélagi telst ég ekki rík. Ég á að nafninu til íbúð og lítið fyrirtæki og það gerir mér fært að borða það sem ég vil og sofa rólega á næturnar. Á hinn bóginn hefta þessi lífsgæði mig í því að gera það sem mér sýnist. Ef ég held í þetta smávegis öryggi þá tefur það mig í því að gera það sem skiptir mig næst mestu máli í lífinu; þ.e. að verja smá tíma í hjálparstarf, bara til að geta sagt sjálfri mér að ég sé almennileg manneskja, eða a.m.k. ofurlítið minna samsek í glæp gagnvart mannkyninu en ella. Til að láta þann draum rætast þarf ég annaðhvort að afsala mér fjárhagslegum skuldbindingum mínum og þar með öryggi mínu eða öðlast nógu mikið fjárhagslegt öryggi til að standa undir skuldbindingum um leið og ég geri það sem ég þarf til að verða almennileg manneskja; sem mér finnst ívið skemmtilegri kostur.

Það sama gildir um tilfinningalegt öryggi. Það er indælt að eiga áreiðanlegan maka sem stendur við orð sín og elskar mann smávegis. Maður sefur betur. Maður er pínulítið minna einmana. En það merkir líka að maður skuldbindur sig til að sleppa einhverju öðru sem er eftirsóknarvert. Maður er ekkert sérlega frjáls. Ekki fyrr en sambandið kemst á það stig að maður geti tekið niður grímurnar án þess að eiga á hættu að vera dæmdur fyrir það sem maður er.

Að búa við tilfinningalegt öryggi merkir að maður þarf ekki að velja um að bregðast, og þar með að klúðra sambandinu, eða að dansa eftir duttlungum annarrar manneskju. Tilfinningalegt öryggi felur í sér gagnkvæmt traust. Það merkir að maður getur bæði staðið við skuldbindingar sínar og um leið unnið að öðrum markmiðum en því að rækta sambandið. Það þýðir líka að maður getur sagt það sem manni dettur í hug, (þá á ég við að tjá skoðanir og tilfinningar en ekki það að hreyta fjúkyrðum í geðshræringu, það er aldrei í lagi að særa aðra) án þess að eiga á hættu að það verði mistúlkað eða notað gegn manni síðar. Þegar maður býr við tilfinningalegt öryggi getur hinn aðilinn reiknað með að maður sýni honum hollustu. Maður getur að sama skapi gert ráð fyrir því að makinn taki ábyrgð á orðum sínum, gjörðum og tilfinningum, dæmi mann ekki án þess að hafa forsendur til þess, segi það sem hann meinar og meini það sem hann segir, standi við orð sín og segi manni satt. Og ef maður nær því; þá og þá fyrst er maður frjáls.

Hvað ætli taki að meðaltali langan tíma að verða ríkur, í þeirri merkingu að geta unnið þegar, ef og við það sem manni sýnist án þess að líða skort ef maður veikist?

Hvað ætli taki að meðaltali langan tíma að eignast maka, í þeirri merkingu að geta verið sjálfum sér samkvæmur án þess eiga á hættu að missa hann ef maður gerir mistök?

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Um öryggi og frelsi

  1. ————————————-

    http://www.supergas.tv/html/lyrics/me_and_bobby_mcgee.txt
    Þú ert góður penni!

    Posted by: AnnaS | 1.05.2008 | 11:43:21

    ————————————-

    Með tímanum lærir maður hverjum má treysta og hverjum ekki á sama hátt og aðrir finna út hvort manni sjálfum er treystandi.
    Aldrei nein trygging fyrir hendi – bara ást,umburðarlyndi og von.
    Með kveðju,

    Posted by: Ragna | 1.05.2008 | 16:34:48

Lokað er á athugasemdir.