Eins og á að elska

Þegar ég kynntist honum keypti ég mér ný silkináttföt. Blágræn, því það var vísun í alveg sérstaka tegund af pegasusi. Liturinn var tákn. Nafnið var tákn. Ég vissi að hann skildi það ekki almennilega en hann var góður við mig og þeir sem hafa skilið mig hvað best hafa ekkert endilega verið góðir við mig. Á því augnabliki langaði mig meira að vera elskuð en skilin en ég hafði áhyggjur af því að táknsýkin í mér kynni að vefjast fyrir honum.

-Finnst þér ég skrýtin? sagði ég.
-Já, sagði hann, en það er allt í lagi, þú mátt alveg vera skrýtin.
Og mér fannst það mjög fallega sagt en ég var ekki viss um að ég tryði því. Kannski voru það töfrarnir í þessum blágrænu náttfötum sem fengu hann til að segja það sem ég vildi heyra. Er á meðan er, hugsaði ég og það var gott er.

Svo leið hálft ár og hann skilur mig enn ekki, ekki nema að litlu leyti og ég verð að játa að ég hef velt því fyrir mér hvort hann sé kannski geimvera í dulargervi. Allavega kemst hann stundum að vélmennakenndum niðurstöðum og mér finnst líka eitthvað grunsamlegt við þennan undarlega áhuga hans á stjarneðlisfræði og geimskipum. Og maður sem hugsar eins og hann (hvernig sem hann nú annars hugsar, ég botna ekki almennilega í því) hlýtur að telja það dálítið galið þegar ég les á milli línanna eitthvað sem hann vissi ekki sjálfur að væri þar eða tek því hvernig sjónvarpsdagskránni er raðað upp sem persónulegum skilaboðum örlaganna til mín.

-Finnst þér ég skrýtin? sagði ég við Pegasus, í gær, eftir að hafa treyst honum fyrir dálitu sem jafnvel á mælikvarða einhvers sem er ekkert skyldur geimverum, myndi sennilega teljast ofurlítið skrýtið.
-Já, sagði hann, en það er allt í lagi, þú mátt alveg vera skrýtin.
Svo hélt hann áfram að vera góður við mig, þótt honum þætti ég skrýtin og mér fannst eins og ég gæti alveg treyst honum fyrir sjálfri mér, alveg alla leið, jafnvel þótt hann skildi mig ekki. Mér datt snöggvast í hug að það væru bara grænbláu náttfötin aftur, en það getur varla verið því hann er líka góður við mig þegar ég er í rauðu eða svörtu eða fjólubláu. Samt skilur hann mig ekkert betur þá. Allavega ekki þegar ég er í rauðu.

Líklega elskar hann mig bara.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Eins og á að elska

  1. ————————————-

    Mér finnst stundum bara málið að njóta. Ekki reyna að skilja og skýra, heldur bara sleppa takinu og fljóta þangað sem tilfinningin ber mig. Vill reyndar svo vel til, að ég á dásamlega ástkonu og það eru svo góðar og fallegar tilfinningar sem fleyta mér áfram.
    Posted by: HT | 9.04.2008 | 14:34:55

    —   —   —

    það skildi þó aldrei vera?

    Posted by: Syngibjörg | 9.04.2008 | 17:30:30

    —   —   —

    Það er örugglega engin skylda að skilja út í æsar 🙂

    Posted by: hildigunnur | 9.04.2008 | 20:40:08

Lokað er á athugasemdir.