Geisp

Svo gott að fá heilan dag til að slappa af, hanga á netinu, blogga, ráða sunnudagskrossgátuna, smyrja 5 tegundum af kremi á kroppinn á sér, hitta vini, fara á veitingahús, lesa. Ég ætlaði eiginlega að yrkja eitt kvæði í dag en kom mér ekki í gang. Það hefur líklega verið of metnaðarfullt markmið. Ég hef ekki gert neitt af viti í allan dag nema fara í ræktina og samt finnst mér ég þurfa annan frídag til að komast yfir allt það aðgerðaleysi sem mig langar að fremja.

Ég er að veslast upp af tilgangsleysi. Orðin hálfleið á búðinni minni, ekkert áhugavert í gangi og allt útlit fyrir að líf mitt allt verði spólandi í sama hjólfarinu í marga mánuði enn nema ég geri eitthvað róttækt. Ég verð að komast til Palestínu. Ég er búin að ræða það við Mammon og ef hann tekur ekki upp á einhverjum kenjum ætti ég að ráða við það í haust.

Best er að deila með því að afrita slóðina