Af fávitum og fávitafælum

Vinkona mín er í þeirri óskemmtilegu aðstöðu að vera ofsótt af raðböggara. Ég er ekki að tala um þessa hefðbundnu gerð af fávita sem gleymir afmælum, segist ætla að hringja en gerir það svo ekki eða lætur sig hverfa vikum saman og skýtur svo upp kollinum til að rugla í henni þegar hann vantar athygli. Ég er löngu búin að finna ráð gegn slíkum kónum.

Nei hér er um að ræða annað mál og verra, þ.e.a.s. hreinræktað skítseiði. Þessa týpu sem hrellir þolandann með stöðugum takkaýtingum, eltir hana, sendir andstyggileg sms (nafnlaus), sendir inn komment á bloggsíður í hennar nafni og ýmislegt annað sem veldur hverri sómakærri manneskju velgju og viðbjóði. Viðkomandi er augljóslega tilfinningalegur fáviti en vitsmunir hans duga honum þó til að vita nákvæmlega hversu langt hann getur gengið án þess að kæra standist fyrir dómi. Það er auðvitað grundvallarmunur á því að óska einhverjum dauða eða hóta lífláti, það seinna er ólöglegt, hið fyrra eingöngu til þess fallið að æra, ekki bara óstöðugan heldur stöðugan líka.

Ég hef aldrei orðið fyrir ofsóknum af þessu tagi sjálf en ég veit nákvæmlega hvað ég myndi gera í þessari stöðu. Ég myndi setja kærastann minn í málið og það strax. Ef enginn kærasti væri til staðar myndi ég leita til vinar og í versta falli myndi ég láta pabba minn eða syni um fávitann, allt frekar en að láta hann komast upp með að angra mig.

Það hljómar kannsi ekkert sérlega töff að kalla á heimavarnarliðið en greindir fávitar sem hegða sér á þennan hátt, hætta ekkert þótt þeir séu hundsaðir og það eru líka takmörk fyrir því hverskonar framkomu er hægt að hundsa. Það er óþarfi að bíða eftir beinum hótunum eða árás. Þegar fáviti leggur mann í einelti er rétt og gott að grípa til þeirrar gerðar af fávitafælu sem hæfir tilefninu best. Verndargaldur gegn hinum almenna fávita fæst í Nornabúðinni. Ef fávitinn brýst inn hjá manni eða beitir líkamlegu ofbeldi má nota þessa tegund fávitafælu (myndin er í boði Önnu. Besta fávitafælan gegn andlegum terroristum sem engin lög ná yfir er karlmaður með bein í nefinu. Ekki endilega af því að karlmenn hafi neitt sterkara bein í nefinu en konur, heldur vegna þess að fávitar eru (líkt og löggur) ívið hræddari við karlmenn.

Bendir það til veikleika að þiggja hjálp? Jájá, áreiðanlega og hvað með það? Væri maður eitthvað ómerkilegri manneskja við að leita verndar en að láta einhvern drullusokk komast upp með að brjóta sig niður? Mér finnst ég vera sterk og sjálfstæð kona og ég held að flestir sjái mig þannig en það er samt ekki séns í helvíti að ég myndi standa í því mánuðum eða árum saman að losa mig við skíthæl sem kærasti eða vinur gæti gert óvirkan með einu símtali eða í versta falli tekið og rassskellt. Fyrst ég get þegið aðstoð við að draga bílinn minn út úr snjóskafli eða bera húsgögn, hlýt ég alveg eins að geta kyngt stoltinu ef einhver annar er mér færari um að fæla burt fávita. Kannski væri það merki um sjálfsbjargarleysi en ég met hamingju mína þrátt fyrir allt meira en sjálfstæði mitt. Þegar allt kemur til alls fara valdamestu menn veraldar ekki út úr húsi nema í fylgd lífvarða og ég held ekki að þeir njóti neitt minni virðingar fyrir það.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Af fávitum og fávitafælum

  1. —   —   —
     
    Sæl Eva.
    Ég er á leiðinni til Íslands.
    Ekki margt sem ég get get héðan. Stendur til bóta.

    Posted by: HT | 3.04.2008 | 12:43:53

    —   —   —

    Ohh, hef lent í þessari tegund hálfvita, meira að segja tveimur. Er alveg sammála þér og mér finnst einnig að það megi birta upplýsingar um hálfvitana opinberlega, öðrum konum til varnaðar.

    Posted by: Guðrún Inga | 3.04.2008 | 12:54:00

    —   —   —

    Ég er reyndar alltaf skeptísk á þá aðferð að úthrópa fólk sem hefur hagað sér illa nema að afarvel ígrunduðu máli.

    Hvorttveggja þá getur það skaðað saklausa t.d. fjölskyldu fávitans og fórnarlambið sjálft en svo má það heldur aldrei verða svo sjálfsagt að nafngreina fólk að það fari með tímanum að þykja eðlilegt að draga fólk niður í svaðið fyrir minniháttar yfirsjónir eða jafnvel að gefa út lygasögur. Fræga fólkið fer ekki varhluta af því og það finnst mér nógu slæmt en svo þarf maður ekki annað en að segja Lúkas…

    Posted by: Eva | 3.04.2008 | 16:14:33

    —   —   —

    Þetta er tvíeggjað sverð, að nefna glæpinn. Sérstaklega í þeim tilfellum þar sem raðböggarinn stendur sjálfur í því að breiða út lygar um fórnarlambið jafnfram því að stunda bögg og svívirðingar.

    Posted by: Unnur María | 3.04.2008 | 16:18:35

    —   —   —

    Algerlega sammála Evu. ekki kæri ég mig um að fara niður á plan ofbeldismannsins.

    vil ekki gera hluti sem ég gæti þurft að skammast mín fyrir (nema þá einhverja skemmtilega hluti kannski;)

    Posted by: baun | 3.04.2008 | 17:36:44

    —   —   —

    Skrítið að ykkur finnist í lagi að senda menn út af örkinni til þess að „rökræða“ við böggara en ótækt að segja til þeirra …

    Posted by: Hugz | 3.04.2008 | 23:22:39

    —   —   —

    Ekki til að rökræða, það þýðir ekki neitt, heldur til að gera þeim grein fyrir því að þeir verði ekki látnir komast upp með óþolandi hegðun. Það er hægt að stöðva svona menn án þess að börnin þeirra líði fyrir það.

    Posted by: Eva | 4.04.2008 | 7:32:48

    —   —   —

    Hvernig gera menn öðrum mönnum grein fyrir því að „þeir komist ekki upp með óþolandi hegðun“ ? Koma einhverjar hafnarboltakylfur við sögu ?

    Posted by: Hugz | 4.04.2008 | 23:16:29

    —   —   —

    Ég er alfarið á móti líkamsmeiðingum nema til þess að verjast árás eða afstýra álíka voða. Ekki bara vegna þess að það gæti bitnað á saklausum, heldur líka af því að það byði heim hættunni á því að skíthællinn fengi samúð út á það. Það eru til ýmsar betri leiðir til að gera fávita óvirka. Þar sem ég hef ástæðu til að ætla að sægur fávita lesi þessa síðu, vil ég ekki upplýsa um þær árangursríkustu hér en ef þig vantar ráð gegn fávitum máttu hringja í gemsann minn eða skrifa mér tölvupóst.

    Posted by: Eva | 5.04.2008 | 2:18:33

    —   —   —

    Ofbeldi leysir engan vanda heldur bara býr til nýjan. Lögin eiga að vera til að vernda borgara fyrir ofbeldi af hvaða tagi sem er og ef þau eru ekki að skila þeim árangri þá þarf að breyta lögunum.

    Posted by: Guðjón Viðar | 5.04.2008 | 17:05:51

Lokað er á athugasemdir.