Bísam

Eva: Hvort þætti þér verra; að vera utangarðs út á það sem þú ert eða að njóta viðurkenningar út á eitthvað sem þú ert ekki?
Ljúflingur: Ég held að gagnvart hópnum vilji flestir vera inni, jafnvel út á falska ímynd. Ekki kannski þú en flestir eru háðir félagslegri viðurkenningu.
Eva: Ég held að þú hafir rétt fyrir þér en gildir annað gagnvart nánum samböndum en hópnum?
Ljúflingur: Jaaaaá, viljum við ekki geta tekið niður grímurnar í nokkuð góðri vissu um að við séum elskuð þrátt fyrir að vera eins og við erum?

Eva: Uhh… ég vil vera elskuð vegna þess sem ég er, ekki þrátt fyrir það.
Ljúflingur: Þú ert nú líka frekja. Ég held að flestir sætti sig við að vera nokkurnveginn umbornir af sínum nánustu.
Eva: Jamm. Fólk er eitthvað svo þurfandi. Þessvegna hanga fjölskyldur og vinir oft saman á óánægjunni þótt því líki ekki einu sinni vel við hvort annað.
Ljúflingur: Ég held nú að flestum líki nokkurnveginn vel við þá sem þeir hanga með af eigin hvötum.
Eva: Líki vel við eða umberi?
Ljúflingur: Við umberum þá sem við elskum, þótt okkur líki ekki við þá.
Eva: Slík eru örlög mannsins. Hann er umborinn vegna þess að hann er elskaður. Ekki elskaður  af því að hann sé metinn að verðleikum. Þessvegna þarf kærleikurinn að koma fyrst, því litli huggulegi ruglheimurinn hans myndi bara hrynja ef hann krefðist smávegis heiðarleika af sjálfum sér og öðrum.

-Hvahh er Nietzshe í heimsókn? spurði hann en bara af því að hann veit að ef hann hefði spurt hvort Rósa frænka væri í heimsókn hefði ég sagt honum að hoppa upp í rassgatið á sér.
-Jamm, hann er hér og allt liðið reyndar; Nietzshe, Kristur,Satan og Belsebub. Já og Skrattinn í sauðarleggnum og m.a.s. Rósa frænka líka.
Ljúflingur: Ljóta samkoman það.
-Wanna join in?

Ljúflingur:  Ég veit ekki hvað gengur á í hausnum á þér og ég reikna ekki með að þú segir mér það, en ég elska þig allavega vegna þess sem þú ert.
-Jamm, og giftist samt konu sem þú elskaðir þrátt fyrir það sem hún er, það er þessi karlmannlega rökvísi.
Ljúflingur:  Þetta eru orðin nokkuð mörg jömm í einu netspjalli Eva. Get ég gert eitthvað?
-Nei. Ég er bara í krísu yfir eðli mannsins. Það hendir sumt fólk.
Ljúflingur: Það er líka eðli mannsins að gera málamiðlanir, það hendir sumt fólk.

Ég umber ekki marga nema bara sakir kurteisi í stuttan tíma. Ég hugsa að það séu innan við tíu manneskjur í veröldinni sem ég umber af ást. En þeir eru til sem ég elska vegna þess sem þeir eru og ég kann vel við jafningja.

Best er að deila með því að afrita slóðina