Skiptir fjárhagsstaða máli?

Ég hef oft verið spurð að því, bæði af körlum og konum, hversu mikil áhrif fjárhagsstaða karlmanns hafi á líkurnar á því að ég verði hrifin af honum.

Ég býst við að fallegasta svarið væri að peningar skipti engu máli en það er bara ekki rétt. Fjárhagsstaða hefur áhrif á það hvernig maður metur fólk, rétt eins og útlit, heilsufar, félagsleg staða, lífsviðhorf, framkoma og umgengni. Ég held samt að það sé afskaplega sjaldgæft konur setji fjárhagsstöðu manns í fyrsta sætið og að karlmenn falli fyrir konu eingöngu út á útlitið. Eða öfugt.

Ég hef hitt marga karla sem hafa dýrari lífstíl en ég. Menn sem virðist rökrétt að kalla vel stæða eða ríka. Ég hef aldrei fallið fyrir manni út á tekjurnar hans eða dótið sem hann hefur í kringum sig. Kannski þætti mér það mikilvæagara ef ég byggi í öðru menningarsamfélagi, hefði fæðst árið 1930 eða væri 19 ára en íslenskar konur á mínum aldri sjá karla yfirleitt ekki sem framtíðarfyrirvinnu (enda vanar að sjá um sig sjálfar), heldur sem félaga. Samt sem áður bendir góð fjárhagsstaða oftast til margra jákvæðra eiginleika og mér finnst ágætt að þurfa ekki að hafa samviskubit yfir því að maðurinn sé að setja sig á hausinn með því að borga fyrir mig bíómiða.

Það má kannski orða það þannig að góð fjárhagsstaða heilli mig ekki sérstaklega en geti verið bónus ef allt annað er í lagi, en mjög bágborin fjárhagsstaða geti ásamt öðrum vandamálum átt þátt í að fæla mig frá.

Best er að deila með því að afrita slóðina