Háð

Andardráttur vakandi manns. Andardráttur sofandi manns. Lyktin af einhverjum sem er stærri og sterkari en maður sjálfur. Síðasta syfjaða góða-nótt hvíslið áður en maður líður inn í svefninn. Að rumska við leitandi snertingu sofandi handar, sem er bara að ganga úr skugga um að maður sé örugglega nálægur. Snerting kviðar við bak. Fólk hlýtur að vera nokkuð góðir vinir þegar því er farið að finnast svo ágætt að límast saman á svitanum, að það hefur ekki fyrir því að fara í náttföt eða leggja lak á milli sín.

Við systurnar bökuðum okkur pizzu og drukkum rauðvín í kvöld, spiluðum krossgátuspil og ræddum heimsmálin, trúarbrögð og heimsku mannanna. Hún ætlar að koma með á Vantrúarbingóið á morgun (eða öllu heldur í dag). Ég er löngu komin heim en á eitthvað erfitt með að koma mér í rúmið. Ég hef verið svo mikið hjá Pegasusi undanfarið að ég er að verða háð því að sofna hjá honum. Röklega séð er það óheillavænleg þróun.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Háð

  1. ————————————

    Ég vil baka pitsu og drekka rauðvín með ykkur…
    Buhuhu

    Posted by: Hulla | 21.03.2008 | 17:37:47

    —   —   —

    Við söknum þín líka elskan. Þegar þú kemur heim næst skulum við hafa systrakvöld.

    Posted by: Eva | 21.03.2008 | 18:19:05

Lokað er á athugasemdir.