Borgar það sig?

Dómarinn horfði á okkur með svip sem gaf til kynna verulegar efasemdir um geðheilbrigði okkar.
-Jú. Þið eigið auðvitað fullan rétt á að verja ykkur sjálf en ég ræð ykkur eindregið frá því, nema þið séuð löglærð, sagði hún.

Ég veit það ekki, svei mér þá. Þeir verjendur sem mitt fólk hefur reynslu af eiga lítið skylt við Alan Shore. Er t.d. forsvaranlegt að verjandi mæli sér mót við skjólstæðinga sína nokkrum dögum fyrir réttarhöld en mæti ekki. Svari svo hvorki síma né tölvupósti fyrr en daginn sem málið er tekið fyrir og hafi þá þær fréttir helstar að færa að hann sé búinn að týna málsgögnunum? Sem hann var eiginlega ekki búinn að kynna sér almennilega. Þegar allt kemur til alls hef ég sjálf meiri áhuga á málinu en ég get reiknað með af nokkrum lögmanni og hvernig sem allt fer er það versta sem getur gerst ekkert svo voðalegt.

Mig langar að tala við einhvern sem hefur reynslu af því að verja sig sjálfur eða þekkir slík mál vel. Ábendingar vel þegnar.

Já og eitt sem ég uppgötvaði í morgun. Sem ég hef ekki vitað fyrr; vitneskjan um að maður sé elskaður er meira kvíðastillandi en nokkur fyrirlestur um að allt muni fara á besta veg. Ofurlítill uggur gagnvart því að þurfa að svara fyrir sig er innbyggður í eðli mannsins, jafnvel þegar maður veit að það versta sem getur gerst er ekkert svo slæmt. Það dregur verulega úr þessum ugg að vera þess fullviss að einhver sem er stærri, sterkari og hugrakkari en maður sjálfur muni faðma mann þegar því lýkur, hvernig sem allt fer. Það er hallærislegt að vera undir svona sterkum áhrifum af stöðluðum kynjaímyndum en mér er eiginlega sama. Mannskepnan er í eðli sínu fremur hallærisleg.

Já og eitt í viðbót. Ég var að átta mig á því að ég veit ekki hvað það merkir nákvæmlega þegar mál er þingfest. Getur einhver sagt mér það eða bent á vefslóð?

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Borgar það sig?

  1. ————————

    Sjá http://www.bizjournals.com/houston/stories/2004/02/09/focus9.html

    Þingfesting er upphaf málsmeðferðar. Sjá http://kristjana.klaki.net/skolinn/LogfrAglosur.doc

    Út á hvað gengur málið?

    Posted by: Elías Halldór | 11.02.2008 | 18:02:16

    —   —  —

    Eva mín, Sé verjandi ykkar alls óundirbúning þá þarftu annað hvort að óska eftir því við dómara að hann skipi þér nýjan verjanda en hvað sem þú gerir EKKI verja þig sjálf !!
    Þú athugar að meðferð fyrir dómstólum fer eftir lögum og lagarökum ekki eftir sanngirni ,skoðunum þínum á réttu og röngu og enn síður á réttmæti þíns málstaðar. Þannig ég mundi eindregið ráðleggja þér að fara eftir ráðum þessa dómara, ekki verja þig sjálf.

    Posted by: Guðjón Viðar | 11.02.2008 | 18:11:13

    —   —  —

    Ég verð að vera sammála. Fáðu þér aggressífan lögfræðing sem er með sanngirni og mannréttindi á heilanum.

    Allt í einu fékk ég snilldarhugmynd. Hvað með að safna saman upplýsingum á haestirettur.is og domstolar.is og búa til einkunnalista yfir málaflutningsmenn þessa lands?

    Posted by: Anonymous | 11.02.2008 | 18:44:31

    —   —  —

    Já herregud, fáðu þér mann sem vinnur við þetta.

    Þeir eru ekki allir slæmir, bara flestir

    Posted by: Halli | 11.02.2008 | 20:02:10

    —   —   —

    Takk fyrir slóðirnar Elías.

    Ég er ákærð fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, sem ég gerði reyndar ekki. Tildrög málsins eru þau að ég tók þátt í því að loka veginum að Hellisheiðarvirkjun í sumar með því að leggja bílnum mínum upp við annan bíl. Nokkrir mótmælendur hlekkjuðu sig undir bílinn.

    Þegar lögreglan kom á staðinn og sagði mér að færa bílinn sagði ég hátt og snjallt að það skyldi ég sannarlega gera um leið og fólkið væri farið undan honum en ég myndi vitanlega ekki stofna mannslífum í hættu. Ég bauð þeim m.a.s. lykilinn. Ég var beðin að koma inn í lögreglubíl, sem ég og gerði, strax og möglunarlaust. Það gleymdist reyndar að tilkynna mér að ég væri þar með handtekin, hvað þá að ég fengi skýringar á því fyrir hvaða sakir.

    Posted by: Eva | 11.02.2008 | 20:46:45

    —   —   —

    Ég er sammála Elíasi og fleirum. Betra að hafa lögfræðing, hvað sem allri sanngirni líður og kjánagangi lögreglunnar. Kerfið er ótrúlega þungt í vöfum og auðvelt að hanka saklaust fólk á smáatriðum. Það HLÝTUR að vera góður lögfræðingur þarna heima sem tekur helst að sér svona mál, er það ekki? Er það bara ég sem er búin að vera of lengi í svona útlöndum þar sem sérhæfing lögmanna er næstum skylda?

    Posted by: Kristín | 12.02.2008 | 9:17:11

    —   —   —

    Afsakið, ég meina að ég er sammála Guðjóni Viðari. Og svo vildi ég bara segja að ég efast ekki í sekúndu um að karlmaður finni sömu þörf á faðmlagi þegar hann tekst á við svona fáránlegar aðstæður og að elskaður karlmaður hlýtur að finna til þakklætis fyrir að vera það. Ekkert hallærislegt eða kynjalegt við það.

    Posted by: Kristín | 12.02.2008 | 9:20:17

    —   —   —

    Ósammála öllum ræðumönnum hér að ofan. Verðu þig sjálf.
    Mannréttindalögfræðinga á Íslandi má telja á fingrum annarar handar,
    langflestir lögfræðingar á Íslandi eru viðskipta- og fasteignalögfræðingar.

    Kjósið þið að verja ykkur sjálf þá ber dómara að hjálpa ykkur í gegnum
    málið að einhverju leyti og þið gætuð þegið lögfræðiráðgjöf frá menntuðum
    lögfræðingum án þess að skipa þá sem verjendur.

    En þið munuð nær örugglega tapa málinu hvað sem tautar og raular. Það að
    einn lögreglumaður styðji frásögn annars þykir sanna frásögn hins fyrsta
    fyrir dómstólum. Málskosnaðurinn verður stærsti hausverkurinn í
    eftirleiknum og þar af verða laun verjanda u.þ.b. 3/4. Verjið ykkur sjálf
    og hlífið ykkur við þessum kostnaði.

    Posted by: Hrefna | 18.02.2008 | 23:49:56

Lokað er á athugasemdir.