Innkaup

Ég er með vott af stórmarkaðafóbíu. Kemst svosem alveg í gegnum Bónus á föstudegi án þess að fríka út en líður alltaf eins og einhver ægileg ógn sé í nánd. Reyndar hef ég komið mér sem mest undan verslunarferðum síðustu tvö árin en þá sjaldan að ég neyðist til að fara í búð breytir það ótrúlega miklu fyrir mig að hafa einhvern með mér.

Þetta er náttúrulega fáránlegt því það er í fyrsta lagi engin raunveruleg ógn, ég veit vel að það eru engar líkur á því að dósarekkarnir hrynji ofan á mig eða að múgurinn taki sig saman um að króga mig af í kartöfluhorninu og í öðru lagi, þótt svo undarlega færi, þá gæti fylgdarsveinninn sennilega lítið gert til að afstýra því.

Við fórum í Fjarðarkaup til að versla fyrir áramótin áðan og mér leið bara ekkert svo illa. Samt ætlaði ég aldrei að finna niðursoðinn engifer. Undir flestum kringumstæðum hefði ég bara hætt við að kaupa engifer, þar sem hann er ekki bráðnauðsynlegur en í þetta sinn var ekkert mál að þurfa að leita aðeins betur.

Svo toppar það náttúrulega ánægjuna af því að hafa drepið hnetusteik, pekingönd og engiferkrukku á einu bretti þegar bráðmyndarlegur karlmaður sér um að borga brúsann. Jamm, ég veit að þessi afstaða er ólík mér en þetta samband er heldur ekki líkt neinu öðru sem ég hef upplifað.

Best er að deila með því að afrita slóðina