Og það var allt út af einni jurt…

Pysjan og Pegasus sitja í hrókasamræðum við borðstofuborðið þegar hann birtist eftir mjög langan tíma, Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni. Ég kyssi hann á vangann og hann svarar kveðjunni en ekki af neinum innileika.
-Ég er að trufla samtal, segir hann einhversstaðar á milli fulllyrðingar og spurningar.
-Við vorum að tala um dráttarvélar, segir Pegasus og kynnir sig.

Hann sest ekki niður þótt vafalaust hafi hann jafn athyglisverðar hugmyndir um dráttarvélar og hvað annað. Er á hraðferð. Kom bara til að sækja verkfæri sem hann lánaði mér fyrir löngu. Af kurteisi sinni staldrar hann samt við í nokkrar mínútur, hamingjan uppmáluð að vanda. Hann lýsir í örstuttu máli upplifun sinni á fyrirheitna landinu (en af óljósum ástæðum varð dvöl hans þar öllu styttri en til stóð) og segist vera illt í pólitíkinni þegar ég spyr hvernig honum líði í hjartanu. Hann gerist ekki djúpvitur á þessum stutta tíma og Pegasus fær aðeins aðkenningu af kátínu hans en hann þarf sennilega ekki meira til að átta sig á því að þessi tegund verður seint fjöldaframleidd.

Hvernig útskýrir maður sálufélag við veru af þessu tagi fyrir einhverjum sem gerir skýran greinarmun á skáldskap og veruleika? Hvaða skýringu gefur maður raunverulegum manni, þegar sögupersóna stígur út úr tölvuskjánum og tekur sjálfstæðar ákvarðanir sem eru ekki endilega í samræmi við stefnu höfundarins? Hvernig kemst maður út úr sögunni sjálfur án þess að taka alla Elíasa tilveru sinnar með sér? Hvernig skilur maður þá eftir, án þess að loka bókinni? En ef maður vill ekki skilja þá eftir, hvað þá?

Einu sinni sagði lygilegasta persóna sápuóperu minnar við mig: kannski ættirðu oftar að skrifa það sem ég les.

Hann hefur líklega rétt fyrir sér.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Og það var allt út af einni jurt…

  1. ———————–

    Ef þetta er skáldskapur þá erum við víst öll rithöfundar

    Posted by: R02 | 27.11.2007 | 11:49:37

    —   —   —

    aftur á ég í erfiðleikum með að lesa í línurnar en ekki hjá þér Eva heldur hjá R02. já allir eru í raun rithöfundar (alla vegana allir sem skrifa eithvað) og allir eru listamenn hvert ertu að fara með þetta ?

    Posted by: Drengurinn | 28.11.2007 | 2:33:59

Lokað er á athugasemdir.