Það er til

Þegar ég var í 7. bekk, reyndi ég að kría koss út úr skólabróður mínum. Ég hafði fengið minn fyrsta koss algerlega óvænt nokkrum dögum fyrr og væri rík kona í dag ef ég gæti selt fá tilfinningu í pilluformi. Kossvaldur hafði ekki virt mig viðlits síðan og þótt ég væri svona fyrir siðsemissakir orðin ástfangin af honum (maður kyssir ekki einhvern sem maður er ekkert hrifinn af) og hefði hann grunaðan um að hafa aðeins verið að æfa sig á mér, gat ég ekki almennilega erft það við hann. Skildi það bara svo vel.

Eftir á að hyggja hefur þetta nú líklega bara verið skyndiákvörðun, líkt og þegar ég sjálf nokkrum dögum síðar stóð allt í einu augliti til auglitis við strák sem ég hafði aldrei tekið eftir en var svosem enginn ódámur, og var búin að heimta koss áður en ég náði að hugsa það til enda.

Drengurinn starði andatak á mig furðu lostinn en brosti svo og hristi höfuðið og ég sótti það ekki fastar. Það var engin leið fyrir mig að ráða í svip hans hvort hann var feiminn, skotinn í annarri, fannst ég bara alveg úff eða eitthvað annað. Ég tók þessa höfnun svosem ekkert nærri mér en skammaðist mín fyrir að hafa í rauninni ætlað að nota hann til að ganga úr skugga um það hvort það væru kossar sem slíkir sem hefðu þessi áhrif eða hvort hinn strákurinn væri svona spes.

Nú, tæpum 27 árum síðar, get ég ekki betur séð en að honum sé farin að hugnast hugmyndin um að kyssa mig. Vill dansa við mig en ég er komin með blöðrur á fæturna.
-Förum bara varlega, segir hann og dregur mig til sín.
-Ég get ekki dansað svona, það er ekki hægt að stjórna mér, segi ég en læt samt undan þegar hann faðmar mig. Ég hverf inn í fangið á honum og hver einasta fruma líkamans æpir: það er til, sterkara kynið er til!
-Það er ekki til neitt sterkara kyn. Bara ofbeldishneigðara kyn, segir Birtan í mér en ég hlusta ekki á hana og leyfi honum að drusla mér fram og aftur, þrátt fyrir að mig verki í fæturna við hvert einasta skref.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Það er til

  1. ———————————————

    Ætli stráksi sé ekki að spá “hvað var ég að hugsa!” Í sumum tilraunum getur verið gaman að vera tilraundýrið ; )

    En ætli hann hafi ekki bara verið hrifinn af annarri..

    Posted by: Pegasus | 1.10.2007 | 20:37:17

Lokað er á athugasemdir.