Eilífðarblóm

-Hef ég nokkurntíma vakið verndarþrá í brjósti þínu? spurði ég.
-Nei Eva, sagði hann. Ungbörn vekja manni verndarþrá og týndir kettlingar. Kannski sjúklingar. Ekki þú.
-Og litlar konur líka. Það er allavega kenning. Litlar konur vekja verndarþrána í brjósti karlmannsins. Eitthvað svona frá tímum hellisbúanna.
-Nope, ekki þú. Ég get ekki ímyndað mér að nokkrum karlmanni hafi nokkurntíma dottið í hug að þú værir ekki fullfær um að passa þig sjálf. Hvað ertu annars að hugsa? Ef ég þekki þig rétt þætti þér ekkert lítið pirrandi ef einhver héldi að þig vantaði verndara.
-Auðvitað vantar mig ekki verndara. Ég er bara að pæla í því hvort vanti í mig eitthvert mikilvægt, kvenlegt element.

Einu sinni fyrir mörgum árum hitti ég fræðimann á fylliríi. Hann var á blús og eitt af því sem honum þótti sorglegt var að hafa aldrei fengið blóm fyrir kennslu- eða fræðimannsstörf sín. Ég sagði honum hálfundrandi að það hefði aldrei hvarflað að mér að hann hefði gaman af blómum.
-Ég hef heldur ekkert gaman af blómum, sagði hann. En ég hefði gaman af því að vita að einhverjum þætti ég eiga skilið að fá blóm.

Best er að deila með því að afrita slóðina