Án rósa

-Viltu vera hjá mér í nótt?
-Auðvitað vil ég það en það er víst að ég geti það.
-Auðvitað geturðu það. Það er hinsvegar ekki víst að þú viljir það nógu mikið til að nenna veseninu sem það getur kostað. En það er allt í lagi, ég geri mér alveg grein fyrir því að ég er ekki á forgangslistanum hjá þér.

-Ææææææææ!
-Ekkert mál elskan. Ég valdi þessa aðstöðu sjálf. Ég er ekki alltaf ánægð með hana en ég finn ekki fyrir neinni gremju gagnvart þér.
-Það bætir auðvitað allt. Nú líður mér virkilega vel.
-Það var leitt en ég hef ekki hugsað mér að taka ábyrgð á þínu hugarangri. Þú valdir þetta sjálfur.

-Þarfnastu mín?
-Nei.
-Ég held það nú samt. Asnalegt stolt að vilja ekki segja það.
-Kjáni! Eins og ég hafi eitthvert stolt að verja gagnvart þér. Nei Ljúflingur, ég nýt nærveru þinnar en ég þarfnast þín ekki.
-Víst! Annars myndirðu ekki biðja mig að vera hjá þér og svo finn ég líka alveg að það er eitthvað að hrjá þig.
-Nei. Ég er bara einmana.
-Hah! ég vissi það, þú þarfnast mín!
-Nei elskan. Einsemdin er mjög algeng, mannleg kennd og það er ekkert annað að hrjá mig. Ég þarfnast einhvers en það er ekkert persónulegt.

-Mig langar að vera hjá þér. Þú bara veist hvernig þetta er.
-Já.

-En hvað ef ég hringi í tíkina þína og spyr hvort þú megir gista?
-Ég held að það sé mjög slæm hugmynd.
-Af hverju? Kannski er henni sama. Hún veit um mig og hún veit að þú leyfir mér að kalla hana tík.
-Jaaaá. En hún ER tík svo ég sé ekki hversvegna hún ætti að kippa sér upp við það.
-Ég á aldrei eftir að skilja þetta samband ykkar.
-Ekki frekar en hún okkar en það er allt í lagi, maður þarf ekki að skilja sambönd annarra, bara virða þau.

-Ég gæti heimsótt Blíðubrandinn hennar. Kannski er hann einmana líka.
-Það er með ólíkindum hvað þér tekst að fá margar slæmar hugmyndir á einu kvöldi.
-I never promised you a rose garden.
-Nei skrýtna kona, það hefurðu aldrei gert. Það er þó allavega alveg á tæru.

Best er að deila með því að afrita slóðina