Sjúkt

-Þið sjúklingar. Sagði hún það já? Kemur ekki á óvart. Við lifum í svo heilbrigðu samfélagi sjáðu til. Getur þú annars sagt mér hvað er svona sjúkt við að langa til að finna að maður geti treyst einhverjum fullkomlega? sagði Ljúflingur.

-Nei, það get ég ekki, svaraði ég. Ég hefði haldið að sjúku fólki liði illa og okkur líður báðum mjög vel. Ég held að fólk noti orðið „sjúkt“ yfir afbrigðileg ástaratlot af því að það heldur að hugsunarháttur og tilfinningalíf sem það skilur ekki stafi af geðveilum.
-Einmitt! Þeir sem tjá og upplifa ást á annan hátt en með því að sulla í líkamsvessum, hljóta að vera geðveikir og umfram allt haldnir einhverri annarlegri og forboðinni tegund af losta. Því ást og losti hlýtur óhjákvæmilega að fara saman er það ekki? Hvernig getur það verið losti ef það tengist kynferðislegri örvun ekki neitt? Hvað er annars málið með allan þennan losta? Af hverju halda allir að fólk sem elskast þurfi endilega alltaf að vera ríðandi? Og hefurðu nokkurntíma heyrt talað um önnur blíðuhót sem losta? Kossalosti, haldast í hendur losti, faðmlagalosti…
-Ég skil hvað þú átt við, sagði ég. Málið er bara að fólki finnst þetta óhugnanlegt af því það tengir svona upplifun við skelfingu fremur en ást. Sér fyrir sér ofbeldi eða aðstæður sem við ráðum ekki við. Vatn, reyk eða önnur skrímsli. Það heldur að þetta sé merki um kúgun eða sjálfseyðingarhvöt.

Hann kinkaði kolli og lyfti brúnum til merkis um óþrotlegt umburðarlyndi sitt gagnvart heimsku mannanna.
-Mikið hlýtur að vera erfitt að anda í svona þröngum kassa, sagði hann og nuddaði annan handlegginn á sér, hægt en kröftuglega, líkt og hann væri að reyna að afmá ósýnilegan stimpil.

Best er að deila með því að afrita slóðina