Þriðja hjólið

Mig langar bara að tala við þig, ég ætla ekki að biðja þig að hætta að hitta hann og ég ætla ekki vera með nein leiðindi, sagði hún og þar sem málið kom henni við og þar sem kaffihús eru orðin reyklaus, samþykkti ég að hitta hana þótt mér væri það lítið tilhlökkunarefni.

Það fór töluvert í taugarnar á mér að sjá að hún hafði greinilega undirbúið sig á sama hátt og ég sjálf. Hæfilega vel til höfð. Falleg, snyrtileg en þó nógu kæruleysislega klædd til að gefa ekki þá hugmynd að hún væri meðvituð um útganginn á sér. Sem hún var samt. Eins og ég.

Ég heilsaði henni með dóminerandi handabandi, meðvitað. Veit ekki enn hvort hún áttaði sig á því. Ég baðst afsökunar á að hafa urrað á hana í símann, í einlægni en ég biðst reyndar aldrei afsökunar nema vera alvara. Hefði getað fundið hundrað og þrjár réttlætingar en sleppti þeim því ég var í alvörunni leið yfir að hafa brugðist ókvæða við. Hún átti það ekkert skilið. Svo er heldur ekki mikill stíll yfir því að láta geðshræringu sína í ljós og kannski vóg stolt mitt þyngra en samúðin með fórnarlambi geðbólgu minnar. Taldi samt ástæðulaust að missa mig í væmni, svo ég settist niður og starði á hana svipbrigðalaus. Það var hún sem hafði eitthvað að segja og ég hafði ekki hugsað mér að hjálpa henni.

-Mig langar að skilja hvað er í gangi á milli ykkar. Það eina sem ég fæ upp úr honum er að það sé vel hægt að elska fleiri en eina konu í einu, sagði hún.
-Finnst þér það svo fjarstæðukennt? Áttu ekki kærasta sjálf? spurði ég.
-Ég hitti stundum aðra menn en hann. Hvernig ætti annað að vera eins og málum er háttað?
-Ég verð manna síðust til að ásaka þig,
sagði ég. Reyndi að hljóma óræð en veit ekki hversu vel það tókst. Hún aftur á móti var eins óræð og nokkur manneskja getur verið, útilokað að giska á hvort hún ætlaði að skilja við hann, gráta á öxlinni á mér, senda leigumorðingja á mig eða biðja mig að sofa hjá sér.

-Þetta er ekki spurning um hvort þið sofið saman eða hvað það er sem þið sjúklingar kallið þessi undarlegheit ykkar. Ég sæti ekki hér ef ég héldi að samband ykkar væri bara kynferðislegt. Ef það er það þá. Munurinn er sá að ég hitti ekki sama viðhaldið svo til daglega árum saman. Hann er áreiðanlega meira hjá þér en heima hjá sér.
-Heldurðu að ég taki hann frá þér?
-Ég held að hann væri farinn ef hann ætlaði sér það. Og ég held ekki að hann búi með mér af því að það sé þægilegt; ég er ekki ímynd góðrar húsmóður, það er eitthvað annað sem hann sér við mig. En mér finnst ég samt þurfa að vita af hverju hann er svona mikið hjá þér.
-Ég vildi að ég vissi af hverju hann kemur til mín. Það er ekki eins og við eigum eitthvað sameiginlegt og stundum veit ég ekki alveg yfir hverju hann er að hanga. Hinsvegar skil ég vel hversvegna hann vill eiga varaskífu. Viltu sannleikann í allri sinni grimmd?
-Já takk! svaraði hún, sallaróleg. Líklega vissi hún svarið.

-Þú drekkur of mikið og ert aldrei heima hjá þér. Einfalt og óþolandi. En það er rétt hjá þér, hann er ekkert að fara. Hann elskar mig að vísu alveg helling, bara ekki eins mikið og þig.
-Ég drekk reyndar ekkert of mikið. ÖLL drykkja fer í taugarnar á honum og ég get alveg sagt þér að hann myndi líka kalla þig alkóhólista ef hann byggi með þér. Ég er heldur ekkert eina manneskjan í heiminum sem vanrækir maka sinn þegar er mikið að gera og hann leitar ekki til þín bara af því hann þoli ekki að vera einn. Hann hefur hundrað manns til að hanga með og ég veit vel, þótt hann sé ekki að tilkynna mér það sérstaklega, að hann fer líka til þín þegar ég er heima og bláedrú. Ég er oft ein heima þótt hann sé það ekki.
-Hefurðu lýst yfir óánægju með það?
-Nei. Ég er þannig séð ekkert óánægð með það, ég hef mikla þörf fyrir einveru og ég skil vel að hann þurfi að hitta fólk sem er jafn ruglað og hann sjálfur. Mér finnst þetta oft helvíti þægilegt því ég hef þá ekki samviskubit yfir að vanrækja hann á meðan. Ég er bara að velta fyrir mér hvert þetta stefni.
-Þarf það að stefna eitthvert? Er þetta ekki bara fínt svona? Hann er ánægður, þú segist vera ánægð, svo hvert er þá vandamálið?

Hún strauk hárið frá andlitinu, þreytulega, líkt og hún hefði setið lengi yfir flókinni stærðfræði. Horfði beint í augun á mér og sagði svo:
-Það ert þú sem ert vandamálið Eva. Ég les bloggið þitt. Geri ráð fyrir að það sé stílfært en samkvæmt því ertu alltaf af og til að leita þér að maka. Og það bitnar á mér, hvort sem þú trúir því eða ekki. Það bitnar líka á mér þegar þú svarar ekki símanum. Svo eitt af því sem ég þarf að fá á hreint er þetta; ert þú ánægð með þetta svona?

 

Best er að deila með því að afrita slóðina