Vondir nágrannar

Einu sinni fyrir löngu kom til mín viðskiptavinur sem bað um galdur til að losna við erfiða nágranna. Það er svosem ekkert óalgengt að fólk biðji um ráð til að bæta andann milli granna, hjálp við að leysa deilur friðsamlega eða jafnvel að losna við einhvern sem reynist óviðræðuhæfur. Þetta tilvik var þó dálítið sérstakt, þar sem allir í stigagangnum voru ósambúðarhæfir og ef ekki þeir sjálfir, þá voru það vinir þeirra sem gengu um með háreysti eða lögðu bílunum sínum illa.

Mér fannst full langt gengið að beita galdri til að hrekja burt íbúa heils stigagangs en útbjó í staðinn galdur til að hjálpa viðskiptavininum að finna sér annað húsnæði. Það tók skamman tíma og nýja íbúðin var bæði betri og á hagstæðara verði. Hebbði ég nú haldið að það teldist árangur.

Nema hvað. Nokkrum vikum eftir flutningana kemur sami viðskiptavinur aftur og segir sínar farir ekki sléttar. Nágrannarnir á nýja staðnum reyndust nebblega síst skárri og lögðu galdrameistarann sjálfan nánast í einelti.

Ég velti varfærnislega upp þeim möguleika að þegar allur heimurinn væri á móti manni gæti kannski orsökin legið hjá manni sjálfum. Bauðst til að útbúa athöfn fyrir fólk sem vill tileinka sér umburðarlyndi og bæta samskiptatækni. Kúnninn móðgaðist og hefur aldrei komið aftur.

Eftir á sé ég að ég hef líklega misst af heilmiklum bissniss með þessu frumhlaupi mínu. Hefði getað þénað formúu, valdið ólgu á fasteignamarkaðinum og jafnvel komist á prósentur hjá fasteignasölum fyrir vikið.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Vondir nágrannar

  1. —————————————–

    spes þetta fólk sem er umkringt fíflum alla daga.

    vorkenni því, það á bágt.

    Posted by: baun | 27.06.2007 | 11:34:10

Lokað er á athugasemdir.