Froða

Hann stóð við afgreiðsluborðið, hélt á stórri ferðatösku og var að kaupa eitthvað svona hollt sem er að þykjast vera sælgæti. Hann tók greinilega eftir mér. Ég ætlaði að kinka kolli í snarheitum og koma mér út en hann kallaði „hæ Birta!“ hátt og snjallt, rétt eins og við værum aldavinir.

-Alveg var það eftir íþróttamanni að reyna nota ameríska sölumannstækni á íslenska huldukonu, hugsaði ég, því Íslendingar ávarpa fólk sjaldan með nafni og allra síst flíkum við nöfnum ókunnugra upp í andlitin á þeim. Nema auðvitað sölumenn sem hafa lært amerísku tæknina eins og páfagaukar og eru of vitlausir til að átta sig á því að hún virkar öfugt á þjóðarsál sem lítur svo á að sá sem nefnir nafn einhvers í þriðju gátu hafi vald til að leggja líf hans í rúst. Fyrir óbilandi umburðarlyndi mitt gagnvart mannlegum breyskleika, afrekaði ég samt að glenna munnvikin eilítið upp á við enda vissi maðurinn svosem alls ekki hvað ég heiti og því sennilegast nokkunveginn hættulaus. Ég hnykkti haus í kveðjuskyni en Hressmann var þegar búinn að stofna til samtals og greinilega alls ófær um huglestur og illa að sér í þjóðsögunum líka. Nema hann hafi kært sig kollóttan.

-Langt síðan ég hef rekist á þig hér, sagði Hressmann glaðlega.
-Mmmpfhmphr. Ég kem venjulega á öðrum tíma, sagði ég, ekki nándar nærri eins hamingjusöm.
-Kemurðu á kvöldin? spurði hann
-Nei, sagði ég.
-Ertu soldið lokuð? sagði hann og lét sem hann misskildi hundsunina í svarinu. Nema hann hafi misskilið hana í raun og veru.
-Nei, ég er hreint ekki lokuð, urraði ég. Ég er satt að segja mjög opin. Ég er bara ekkert sérlega mannblendin.

Hressmann horf’ði andartak á þykjustunammið eins og það væri fyrir honum. Lagði svo ferðatöskuna frá sér á gólfið, flutti stöngina yfir í vinstri hönd og rétti mér spaðann.
-Trausti, sagði hann og kreisti á mér lúkuna af íþróttamannslegri snerpu.
-Það er fallegt nafn, heyrði ég sjálfa mig segja og ef ég kynni að skammast mín hefði ég eflaust roðnað af skömm yfir því að láta nokkuð svo fábjánalegt út úr mér. Hvaðan kom þetta hallærislega svar? Í alvöru talað, þetta er ekki líkt mér og auk þess finnst mér Trausti bara ekkert fallegra en önnur nöfn.
-Viltu bit? bauð hann kumpánlega og rak gervinammið upp í andlitið á mér.
Ég hörfaði. Ég hef aldrei verið hrifin af biti. Hvorki mýbiti né þursabiti. Afþakkaði samt kurteislega og setti upp falskt bros í stað þess að taka að mér að kenna honum íslensku. Hann er sennilega vonlaust keis í þeim efnum hvort sem er.

-Ertu að flýta þér? spurði Hressmann.
Ég hugsaði mig aðeins um. Ég var svosem ekkert að flýta mér meira en venjulega og þar sem ég er;
a) kjánalega veik fyrir athygli frá loðnara kyninu,
b) þeirrar skoðurnar að fjölbreytileg reynsla sé dýrmæt,
c) algjörlega laus við reynslu af fittnessídíjótum,
d) haldin augljósum fordómum gagnvart fittnessdíjótum og öðrum illa talandi heimskingjum,
e) meðvituð um að reynsla er besta leiðin til að uppræta fordóma,
f) ennþá óupplýst um í hvaða fokkans heimsálfu Elías hyggst halda sig næsta vetur,
g) ekki svo gæfusöm að hafa lesendahóp sem finnst umhverfis- og mannréttindamál áhugaverðari en einkalíf mitt,
h) haldin langvarandi einkamálaþurrð og þar með á mörkum þess að vera bloggfær,
svaraði ég því til að ég væri ekki á hraðferð og gæti vel sest niður með honum á kaffistofunni, svo fremi sem hann reyndi ekki að byrla mér einhverja hollustu.

Kapútsínó er auðvitað ekkert annað en venjulegt kaffi með mjólkurfroðu. En froða er alveg ágæt af og til.

Best er að deila með því að afrita slóðina