Höfuðfokk

Hann hallaði undir flatt og setti upp; „nú-er-ég-voðavitlaus“svipinn.
-Ég er besti vinur þinn þessi árin er það ekki? sagði hann og reyndi að hljóma svolítið óöruggur.
-Jú, samsinnti ég.
-Og þú treystir mér betur en nokkrum öðrum í heiminum?

-Nei yndið mitt.
-Nú? sagði hann og undrunin virtist a.m.k. ekta. Og hvenær á að kynna mig fyrir þessum sem þú treystir betur en mér?
-Ætli séu ekki 10 eða 12 ár síðan ég kynnti mig fyrir þér fyrst.
-Ó svoleiðis.

-En sko, það sem ég var að pæla … Við höfum gert okkar mistök hvort gagnvart öðru og allt það en aldrei alvarleg samt. Vinátta okkar hefur aldrei verið í hættu og er það ekki, en hvað myndirðu gera ef ég brygðist þér? Tausti þínu meina ég.
-Ég hef ekki áhyggjur af því. Öll samskipti fela í sér áhættu. Ef þú bregst mér einu sinni mun það aldrei gerast aftur.
Þögn

-Stundum gæti maður haldið að þú sért kaldlynd.
-Mér finnst ágætt að fólk haldi það. Með réttu eða röngu, sagði ég og brosti skelmislega.
-Þú hefur ekkert velt því fyrir þér hvernig ég tæki því ef þú brygðist mér? sagði hann og gott ef vottaði ekki fyrir gremju í röddinni. Ég vissi að ég hafði unnið þótt ég vissi ekki almennilega um hvað orustan eiginlega snerist.
-Nei, það hef ég ekki gert enda er það svosem ekkert inni á fimmáraplaninu að bregðast þér. En ef ég ákvæði að gera það segði ég þér heldur ekki frá því gæskur.

Þögn.

-Þú heldur ekkert að ég hafi brugðist þér er það?
-Nei, ég held það ekki. Ég held að þú sért að reyna að fokka í hausnum á mér. Gera mig pínulítið öryggislausa eða eitthvað svoleiðis.
-Af hverju ætti ég að vera að því?
-Já, afhverju ertu að því? Ég vildi að ég gæti lesið hugsanir.
-Ég er ekkert að reyna að gera þig öryggislausa, ég er bara að reyna að kynnast þér betur. Þú ert svo djöfull öryggislaus að í hvert sinn sem ég reyni það heldurðu að eitthvað búi undir.
-Jamm. Ég er óskaplega lítil og öryggislaus innst inni. Svo djúpt inni að ég kemst varla þangað sjálf.
-Er þetta þá svona ég-trúi-að- þú-sért-vinur-minn-þar-til-annað-kemur-í-ljós dæmi? Er það það sem þú kallar traust?
-Ég velti því ekkert fyrir mér hvort annað komi í ljós kjáninn þinn. ÞAÐ er traust.
-Af hverju heldurðu þá að ég sé að reyna að fokka í hausnum á þér?

Já af hverju skyldi ég nú halda það?
Satan minn sæll, er ekki einhver sem getur kennt mér að lesa hugsanir?

Best er að deila með því að afrita slóðina