Laga þá lufsulegu?

Einhleypar konur á mínum aldri eru ýmist í ástarsorg, að bíða eftir að draumaprinsinn sýni þeim áhuga eða komnar með krónískt ógeð á kalkyninu. Það heyrir til algerra undantekninga ef einhleyp kona er ekki að glíma við einhver strákaissjú og þær undantekningar eru skápalessur, báðar.

Kunningjakona mín álítur að ástæðan fyrir því að konur eru svona almennt örvæntingarfyllri en karlar (það heitir víst að vera „örvæntingarfullur“ ef maður hefur eðlilega löngun til að eignast maka og þykir ekki smart) skýrist af því að konur séu svo miklu meiri tilfinningaverur. Karlar séu bara lítt færir um að elska.

Ég hef svosem heyrt þessa kenningu oft áður en ég trúi ekki á hana. Nefndu 30 íslensk ástarljóð af handahófi, hversu mörg þeirra eru eftir konur? Dettur einhverjum í hug að öll sú tónlist, myndverk og bókmenntir sem hafa ástina að þungamiðju sé sprottin úr smiðju manna sem höfðu ekki tilfinningar, eða höfðu ekki skilning á tilfinningum? Klassísk afsökun sem karlar skýla sér á bak við og konur nota til að réttlæta tillitsleysi maka sinna og elskhuga er sú að karlar séu bara svo einfaldir að þeir skilji ekki jafn tilfinningalega margbrotna veru og konuna sína. Listasagan afsannar þetta rugl. Karlar hafa á öllum tímum verið fullkomlega færir um að setja sig í spor kvenna og skilja akkúrat og nákvæmlega hvernig þeim líður.

Karlar eru ekkert minni tilfinningaverur en konur. Þeir elska ekkert minna og hafa ekkert minni þörf fyrir ást og tilfinningalega nánd. Ég held að ástæðan fyrir því hvað huggulegir menn sem eru á lausu virðast almennt tolla illa í samböndum sé einfaldlega sú að þeir hafa úr fleiru að velja og lít þessvegna ekki á það sem neitt stórmál þótt sambandið gangi ekki upp, það er nóg af kvenfólki í boði. Fyrir okkur er þetta aðeins flóknara. Það er nefnilega fullt af stórglæsilegum konum úti um allt en karlar hafa tilhneigingu til að missa líkamlegt aðdráttarafl um þrítugt. Konur þurfa líka að hafa í huga að barneignir verða ekkert í boði fram á elliár.

Afleiðingin af þessu misræmi er sú að á markaðnum eru aðallega ljótir karlar og laglegir drullusokkar. Við konur sjáum ekki annan leik í stöðunni en að slá af kröfunum. Við lítum á það sem sérstaka heppni ef þeir sem sýna okkur áhuga eru í kjörþyngd og kunna á rakvél. Þegar gaurinn svo, í fullvissu þess að á markaðnum séu þúsundir örvæntingarfullra kvenna, tilbúnar til að gera honum til hæfis, lætur konuna bíða í óvissu vikum saman áður en hann ber fyrir sig einhverri skítaafsökun fyrir því að vilja hana ekki, er hún tilbúin með langan lista af skýringum sem hljóða allar upp á eitthvað annað en að hann hafi bara alveg smekk fyrir að leika sér að henni.

Það hlýtur að vera hægt að ala þessa sætu stráka upp í betri siðum. Mér hefur dottið í hug allsherjar kynlífsverkfall en þar sem ég yrði sennilega fyrsta manneskjan til að brjóta það, gengi það ekki upp. Kannski er lausnin sú að hundsa sætu strákana algerlega. (Þeir eru á lausu af góðri ástæðu.) Láta svo þessa sem eru svo ósköp almennilegir en bara ekkert fyrir augað vita að þeir þurfi að gera eitthvað fyrir útlitið á sér áður en þeir fái að koma upp í rúm. Sá karlmaður finnst varla sem myndi ekki aka á sumardekkjum til Trékyllisvíkur ef hann ætti þar vísan drátt og ég hugsa að líkamsræktarstöðvar og hárgreiðslustofur myndu yfirfyllast samdægurs ef við tækjum þessa reglu upp.

En við erum ekki svona grimmar.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

1 thought on “Laga þá lufsulegu?

 1. —————————————————————–

  Af hverju vilja konur endilega eignast maka? Bara skil það ekki. Útskýring óskast….
  Posted by: FB | 6.01.2007 | 21:01:05

  —————————————————————–

  „Sá karlmaður finnst varla sem myndi ekki aka á sumardekkjum til Trékyllisvíkur ef hann ætti þar vísan drátt “

  Þessi setning er bara hrein snilld 🙂

  Posted by: handsomedevil46 | 7.01.2007 | 17:57:26

Lokað er á athugasemdir.